Bæjarins bestu í Washington

Hér eru þrír staðir fyrir þá sem vilja borða alvöru bandarískan skyndibita í höfuðborginni.

Kannski er maginn greiðasta leiðin sem ferðalangar hafa til að mynda tengsl við menningu heimamanna. Túristi þefaði uppi þrjá staði í Washington sem bjóða upp á klassískan amerískan skyndimat hver með sínu sniði.

Ben´s Chili Bowl

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, var ekki öfundsverður af því að vera myndaður bak og fyrir síðast þegar hann heimsótti Ben´s Chili Bowl. Það er nefnilega ekki einfalt að borða pylsu í brauði með vænum skammti af chili con carne sósu ofan á. Með réttinum fylgir því vænn bunki af munnþurrkum. Forsetinn er sennilega vanur maður sem kann að borða Half smoked pylsu án þess að subba sig út og hefur því ekki látið myndatökurnar slá sig út af laginu.

Half smoked pylsa kostar tæpa 6 dollara en einnig er hægt að fá alls kyns önnur afbrigði af pylsum og hakksósum. Vegna mikilla vinsælda hafa afkomendur Ben opnað Ben´s next door, sem er eins og gefur að skilja, við hliðina á pylsustaðnum. Þar er aðeins fínna og dýrara bandarískt fæði.

Ben´s Chili Bowl er við 1213 U street NW, er opinn alla daga og lokar aðeins yfir blánóttina.

Florida Avenue Grill

Það er sennilega leit að stað sem jafnast á við þennan í Bandaríkjunum. Innréttingarnar, diskarnir, réttirnir og kannski kokkurinn hafa verið á sínum stað frá árinu 1944 þegar fyrsti gesturinn var afgreiddur. Hér er morgunmatur er á boðstólum allan daginn og er óhætt að mæla með Miss Bertha´s Breakfast. Sá fer létt með að metta meðal Íslendinginn. Skammturinn kostar 10,95 dollara.

Florida Avenue Grill er við 1100 Florida Avenue NW og er opinn alla daga nema mánudaga.

Good Stuff Eatery

Öfugt við hina tvo þá er Good Stuff Eatery frekar nýr af nálinni en á sennilega eftir að bætast í flokk klassískra staða áður en langt um líður. Einn þekktasti matreiðslumaður borgarinnar stendur að baki þessari hamborgarabúllu sem selur ótrúlega safaríka borgara sem maður efast um að nokkur geti apað eftir fyrir utan Bandaríkin. Það er eitthvað alveg sérstakt við þessar mjúku brauðbollur, stökka beikonið, grillbragðið af kjötinu og ostinn sem flæðir yfir. Þeir sem vilja síður naut geta pantað kalkúnaborgara, t.d. þann sem kenndur er við forsetafrúnna, Michelle. Eftirlæti forsetans er líka að finna á matseðlinum, boli með roquefort osti.

Hamborgarinn kostar um 7 dollara (rúmar 900 krónur).

Good Stuff Eatery er við 303 Pennsylvania Avenue, ekki langt frá Capitol Hill.

Icelandair flýgur til Washington allt árið um kring þannig að alvöru amerískur skyndibiti er næstum því handan við hornið.