Fargjöld lækka eftir að tilboði lýkur

Samkeppni WOW air og Iceland Express harðnar dag frá degi. Í hádeginu í gær auglýsti það síðarnefnda tilboðsverð sem átti að gilda fram til miðnættis. Tólf tímum eftir að tilboðinu lauk voru verðin lækkuð enn frekar.

Það hefur ekki farið framhjá neytendum að forsvarsmenn Iceland Express og WOW air eru í verðstríði. Það líður ekki langur tími á milli tilboða og þau eru ávallt auglýst sem tímabundin. Fólk er hvatt til að bóka bóka í hvelli til að tryggja sér lágt verð. Það er þó ekki víst að tilboðsverðin reynist alltaf lægst.

Lækkuðu um 1000 krónur

Í hádeginu í gær hófst 12 tíma tilboð hjá Iceland Express á farmiðum til London. Hið tímabundna verð var 15.700 krónur, aðra leiðina. Í morgun, þegar tilboðið var útrunnið, var ennþá hægt að fá miðana á þessum kjörum og núna er verðið komið niður í 14.700 krónur samkvæmt athugun Túrista.

Þeir sem bókuðu tilboðsverðið í gær borguðu þ.a.l. meira en sá sem kaupir farið í dag á venjulegu verði. Ástæðan fyrir verðlækkuninni er líklega sú að WOW air svaraði tilboði gærdagsins með því að auglýsa farmiða til London á 14.900 krónur í dag. Er fólki sagt að „bóka strax“ því tilboð WOW air gildi aðeins fram til miðnættis í kvöld. Það er þó ekki víst að það haldi, frekar en í tilfelli Iceland Express, því í frétt Túrista frá 29. maí er haft eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, talskonu WOW air, að ólíklegt væri að tilboðin yrðu fleiri í sumar miðað við þáverandi stöðu. Síðan þá hefur félagið auglýst tíu tilboð. „Markmið WOW air er að vera ávallt ódýrasti kosturinn og njóta því allir góðs af því verðstríði sem ríkir um þessar mundir,“ segir hún aðspurð um síðustu tilboð.

Hörð samkeppni ástæðan

Heimir Már Pétursson, talsmaður Iceland Express, segir harða samkeppni og verðbreytingar á markaði vera ástæðuna fyrir því að verðþróunin síðasta sólarhring hafi verið sú sem líst hefur verið hér að ofan. Hann segir að Iceland Express ætli að vera það félag sem býður hagstæðustu kjörin.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Lækka verð rétt fyrir vertíðÍslensku félögin bíða lægri hlut


Mynd: Túristi