Ferðast um lengsta fljót Danmerkur

Það er hægt að gera miðhluta Jótlands góð skil með því að sigla niður fljótið Guðn.

Tilhugsunin um að láta sig berast með hægum straumnum niður fallega á er vafalítið lokkandi í hugum margra. Sá sem ferðast niður lengsta fljót Danmerkur, Gudenåen eða Guðn, kynnist landi frænda okkar á annan hátt en þeir sem bruna í bíl eða lest.

Flatneskjan í Danmörku er öllum kunn. Það þarf því ekki að koma á óvart að það er alla jafna gott í „sjóinn“ á Gudenåen. Kajakar og kanóar eru því vinsæl farartæki meðal þeirra sem spreyta sig á fljótinu sem nær tæpa 160 kílómetra frá Tørring að Randersfirði. Á leiðinni er fjöldi stórra og smárra bæja þar sem hægt er að gista á tjaldstæðum, gistihúsum og hótelum. Bátafólkið getur líka reglulega tekið gert hlé á róðrinum, stigið á land við huggulega sveitakrá og fengið sér verðskuldaðan frúkost. Það er þó ekki skilyrði að sigla fyrir eigin afli því á Gudenåen eru ferjur, minni vélbátar og skútur einnig á ferð.

Vatnið setur sterkan svip á Silkeborg, fjörtíu þúsund manna bæ, sem liggur á nánast við mitt fljótið. Þaðan er vinsælt að byrja og enda ferðalagið enda þykja dagsleiðirnar á þessu svæði bjóða upp á mikla fjölbreytni. Ekki skemmir heldur fyrir að Silkeborg er huggulegur bær og á fallegum sumardegi er ekki annað hægt en að laðast að vatninu og lífinu í kringum bátana sem þar liggja við bryggju.

Á heimasíðu bátaleigu bæjarins er finna hugmyndir að túrum sem taka frá einum tíma og upp í 10 daga. Það er því allt í boði fyrir þá sem vilja spreyta sig á lengsta fljóti Danmerkur.

Nánari upplýsingar um Gudenåen er að finna á síðu ferðamálaráðs Dana.

TENGDAR GREINAR: Besti veitingastaður NorðurlandaTjaldferð til Jótlands

 

Myndir: Denmark Media Center