Ferðast um lengsta fljót Danmerkur

Það er hægt að gera miðhluta Jótlands góð skil með því að sigla niður fljótið Guðn.

Tilhugs­unin um að láta sig berast með hægum straumnum niður fallega á er vafa­lítið lokk­andi í hugum margra. Sá sem ferðast niður lengsta fljót Danmerkur, Gudenåen eða Guðn, kynnist landi frænda okkar á annan hátt en þeir sem bruna í bíl eða lest.

Flat­neskjan í Danmörku er öllum kunn. Það þarf því ekki að koma á óvart að það er alla jafna gott í “sjóinn” á Gudenåen. Kajakar og kanóar eru því vinsæl farar­tæki meðal þeirra sem spreyta sig á fljótinu sem nær tæpa 160 kíló­metra frá Tørring að Rand­ers­firði. Á leið­inni er fjöldi stórra og smárra bæja þar sem hægt er að gista á tjald­stæðum, gisti­húsum og hótelum. Báta­fólkið getur líka reglu­lega tekið gert hlé á róðr­inum, stigið á land við huggu­lega sveitakrá og fengið sér verð­skuld­aðan frúkost. Það er þó ekki skil­yrði að sigla fyrir eigin afli því á Gudenåen eru ferjur, minni vélbátar og skútur einnig á ferð.

Vatnið setur sterkan svip á Silke­borg, fjörtíu þúsund manna bæ, sem liggur á nánast við mitt fljótið. Þaðan er vinsælt að byrja og enda ferða­lagið enda þykja dags­leið­irnar á þessu svæði bjóða upp á mikla fjöl­breytni. Ekki skemmir heldur fyrir að Silke­borg er huggu­legur bær og á fallegum sumar­degi er ekki annað hægt en að laðast að vatninu og lífinu í kringum bátana sem þar liggja við bryggju.

Á heima­síðu báta­leigu bæjarins er finna hugmyndir að túrum sem taka frá einum tíma og upp í 10 daga. Það er því allt í boði fyrir þá sem vilja spreyta sig á lengsta fljóti Danmerkur.

Nánari upplýs­ingar um Gudenåen er að finna á síðu ferða­mála­ráðs Dana.

TENGDAR GREINAR: Besti veit­inga­staður Norð­ur­landaTjald­ferð til Jótlands

 

Myndir: Denmark Media Center