Hótel með allt innifalið henta ekki öllum börnum

Krakkar sem kunna sér ekki magamál hafa ekkert á hótel að gera þar sem veitingarnar fylgja með gistingunni. Þetta er mat sérfræðings sem segir þess háttar gististaði vera kvöl og pínu fyrir botnlaus börn.

Offita meðal þeirra yngstu er vandamál víða. Í Danmörku er talið að fimmta hvert barn sé of þungt. Þau sem tilheyra þessum hópi eru sett mjög erfiða stöðu þegar fjölskyldan fer á sólarströnd og býr á hóteli þar sem sest er við hlaðborð þrisvar sinnum á dag, í boði er endalaus áfylling í gosglasið og frystikistan með ísnum er öllum opin.

Danskur læknir og sérfræðingur í offitu barna segir í viðtali við Politiken að það jafnist á við pyntingu að fara með krakka sem eiga erfitt með að neita sér um mat og sætindi á þess háttar hótel. Hún segir þessi börn koma úr fríinu í mun verri málum en þau voru í áður en ferðalagið hófst.

Hótel þar sem allar veitingar eru innifaldar í gistingunni hafa slegið í gegn í Danmörku og er talið að fjórir af hverjum tíu þar í landi kaupi þess háttar gistingu þegar sólarlandaferð er bókuð. Íslenskar ferðaskrifstofur bjóða einnig upp á þessa tegund hótela.

Túristi spyr: Finnst þér hótel, þar sem allar veitingar eru innifaldar, spennandi kostur? Vinsamlega svarið hér hægra megin.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Ryanair tekur slaginn í Kaupmannahöfn

Mynd: Ric e Etta/Creative Commons