Íslendingar sýna easyJet minni áhuga

Þegar breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf flug hingað til lands í vor sögðu talsmenn þess að helmingur pantana kæmi frá Íslandi. Fimm mánuðum síðar er hlutfall farþega félagsins, sem hefja ferðalagið hér á landi, komið niður í þriðjung.

Það er útlit fyrir að dregið hafi úr eftirspurn Íslendinga eftir farmiðum breska flugfélagsins easyJet. Þegar félagið hóf áætlunarflug milli Keflavíkur og London í mars sögðu talsmenn þess að bókanir á flugleiðinni skiptust jafnt milli áfangastaðanna tveggja. Fimm mánuðum síðar er staðan sú að þriðjungur farþega félagsins hefur ferðalagið á Íslandi. Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa félagsins við fyrirspurn Túrista. Hún segir þó að Íslandsflugið gangi vel og reiknað sé með að hlutfall Íslendinga í vélum félagsins eigi eftir að aukast.

Næstdýrasti kosturinn

Fargjöld easyJet eru kannski ástæðan fyrir því að vægi farþega héðan er minna en útlit var fyrir í lok vetrar. Mánaðarlegar verðkannanir Túrista hafa nefnilega sýnt að Iceland Express og WOW air bjóða alla jafna upp á ódýrari fargjöld en easyJet til London. Í nýjustu könnuninni, sem var gerð var fyrir tveimur vikum, kom þó í ljós að breska félagið hafði lækkað fargjöld sín í annarri viku ágústmánaðar um fimmtung. Þeir sem bókuðu far með easyJet í þessari ákveðnu viku með 12 vikna fyrirvara borguðu tæpar 57 þúsund krónur fyrir. Átta vikum síðar hafði farið lækkað um tíu þúsund krónur. Minnkandi eftirspurn hér á landi eftir flugmiðum easyJet kann að vera ástæðan fyrir verðlækkuninni.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Ekki svo einfalt með easyJetÍslendingar eru helmingur farþegaEasyJet ferð góð kjör á Keflavíkurflugvelli

Mynd: easyJet