Jamie Oliver opnar á Gatwick

Sjónvarpskokkurinn víðfrægi hefur opnað matsölustaði og bakarí á Gatwick flugvelli í London.

Það er ekki lögmál að allur matur á flugvöllum sé aðkeyptur. Sársvangir ferðalangar þurfa því ekki alltaf að sætta sig við samlokur úr plastbaka eða innpökkuð salöt.

Á Gatwick flugvelli geta farþegar nú gætt sér á mat sem merktur er Jamie Oliver og er væntanlega eldaður á staðnum. Þetta er í fyrsta skipti sem sjónvarpskokkurinn blandar sér í baráttuna um flugfarþega og lætur hann sér ekki nægja að opna einn matsölustað heldur þrjá. Á einum er boðið uppá ítalskan mat, á öðrum eru það breskir réttir og sá þriðji er bakarí sem hugsað er fyrir þá sem eru að flýta sér í flugið.

Allir staðirnir eru í norðurhluta flugvallarins. Farþegar í suðurhlutanum þurfa þó ekki að örvænta því að boðið er uppá ókeypis skutl á milli norðurs og suðurs. Það er heppilegt fyrir farþega Iceland Express því félagið heldur til í suðurhlutanum. Icelandair hefur svo flug til Gatwick í haust.

TENGDAR GREINAR: Miklu betri matarlykt á Gatwick

Mynd: Gatwick airport