Óþarfa eftirlit á Keflavíkurflugvelli?

Ítarleg leit í skóm allra farþega á Keflavíkurflugvelli er séríslenskt úrræði sem Bandaríkjamenn hafa ekkert með að gera. Öfugt við það sem flugmálayfirvöld hér á landi hafa látið í veðri vaka.

Það er leit að þeirri flugstöð á Vesturlöndum þar sem skór allra farþega eru skimaðir líkt og gert er á Keflavíkurflugvelli. Á stærstu flugvöllum Evrópu og í Skandinavíu þurfa farþegar sjaldan eða aldrei úr skóm við vopnaleit. Í Bandaríkjunum eru börn yngri en 12 ára ekki heldur rekin úr skóm. Þar í landi er nú gerðar tilraunir með að leyfa farþegum sem eru 75 ára og eldri að vera í skóm og léttum jakka þegar gengið er í gegnum skanna.

Hér á landi eru þessu þveröfugt farið og allir farþegar þurfa úr skóm. Túristi hefur fjallað reglulega um þetta óvenjulega eftirlit hér á landi og fengið þau svör frá Isavia og Flugmálastjórn að ástæðan fyrir þessu séu m.a. þær kvaðir sem Flugöryggisstofnun Bandaríkjanna setur á flugfélög sem þangað fljúga.

Stór hluti farþega Icelandair óskoðaður

Í dag eru það aðeins Icelandair og Delta sem fljúga frá Keflavík til Bandaríkjanna. Talskona Delta segir, í samtali við Túrista, að félagið fylgi þeim reglum sem gilda á hverjum stað og geri ekki kröfu um að skór allra farþega séu skimaðir. Forsvarsmenn Icelandair vilja hins vegar ekki gefa upp hvaða kröfur bandarísk yfirvöld setja þeim. Það má hins vegar fullyrða að Bandaríkjamenn skylda félagið ekki til að skanna skó allra farþega. Því ef svo væri yrðu skór farþega, sem aðeins millilenda í Keflavík á leið frá Evrópu til Bandaríkjanna, skannaðir. Það er ekki gert. Þess vegna fara flestir, ef ekki allir, farþegar félagsins sem eingöngu millilenda hér á leið til Bandaríkjanna um borð í vélar Icelandair án þess að skór þeirra hafi verið skannaðir. Aðeins þeir sem hefja ferðalagið í Leifsstöð þurfa að gangast undir hina séríslensku skoðun á skóbúnaði.

Íþyngjandi eftirlit

Þegar farið er í gegnum öryggisleit á flugvöllum þurfa farþegar að tæma vasa, taka af sér belti, setja vökva í poka og taka tölvur og raftæki upp úr töskum. Að reka alla úr skóm í þokkabót hlýtur að tefja afgreiðsluna í öryggishliðinu á Keflavíkurflugvelli. Það tekur nefnilega tíma að losa reimar og fara úr skóma. Sérstaklega fyrir börn og þá sem eldri eru.

Meginþorri fólks getur því sennilega tekið undir það sem segir í svari Flugmálastjórnar, við fyrirspurn Túrista, að það sé „…mikilvægt að farþegum sé ekki mismunað né íþyngt umfram kröfur.“ Það er hins vegar gert í dag. Því líkt og hér að ofan er rakið þá er það mjög ólíklegt að Bandaríkjamenn geri kröfu um jafn ítarlega leit í skóm farþega og Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, hefur ákveðið að framkvæma.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Gera Bandaríkjamenn strangari kröfur hér á landi?Bandaríkjamenn slaka á eftirliti en Íslendingar ekki

Mynd: Wikicommons