Rukka fyrir handfarangur

Hin svokölluðu lággjaldaflugfélög standa ekki alltaf undir nafni. Sum þeirra eru nefnilega ófeimin við að bæta alls kyns aukagjöldum við farmiðaverðið. Nú ætlar eitt þeirra að rukka farþegana fyrir þann handfarangur sem ekki kemst undir sætin.

Það eru margir sem ferðast aðeins með töskur sem komast upp í farangurshólfin í farþegarýminu. Þannig kemst fólk hjá því að eyða tíma við farangursbeltin. Þeir sem fljúga með félögum sem rukka sérstaklega fyrir innritaðan farangur geta líka sparað sér töluverðar fjárhæðir með þessu móti.

Nú ætlar hins vegar ungverska flugfélagið Wizz Air að takmarka stærð þess handfarangurs sem taka má gjaldfrjálst með um borð. Farþegar félagsins þurfa þá að borga aukalega 10 evrur (um 1580 krónur) fyrir töskur sem ekki komast undir sætið fyrir framan. Hefðbundnar handfarangurstöskur sleppa því ekki um borð hjá Wizz air nema borgað sé undir þær sérstaklega.

Haft er eftir breskum ferðamálafrömuði í Daily Mail að honum þyki þessi nýja gjaldtaka slæmar fréttir. Því nái þessi nýjung útbreiðslu þurfi fólk að ferðast með næstum því engan farangur ef það ætlar að komast hjá farangursgjöldum félaganna sem kenna sig við lág gjöld.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Yfirvigt álíka dýr og fargjaldið

Mynd: geishaboy500/Creative Common