Ryanair tekur slaginn í Kaupmannahöfn

Þeim fjölgar til muna möguleikunum á ódýru tengiflugi frá Kaupmannahöfn í haust þegar írska lággjaldaflugfélagið hefur starfssemi þar.

Farmiðar til London og Kaupmannahafnar eru alla jafna með þeim ódýrustu sem í boði eru fyrir íslenska túrista. Ferðir til þessara borga eru einnig tíðar og því margir sem kaupa sér tengiflug þaðan þegar leiðin liggur til staða sem eru ekki hluti af leiðarkerfi flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli.

Samkvæmt nýlegri könnun kýs meirihluti lesenda Túrista að millilenda í Kaupmannahöfn frekar en í London. Ástæðan er líklega sú að í gömlu höfuðborginni er aðeins einn flugvöllur og þaðan er auðvelt og ódýrt að koma sér í bæinn ef bíða þarf lengi eftir næsta flugi. Í London geta farþegar þurfa að skipta um flugstöð og vellirnir eru allir talsvert langt í burtu frá miðborginni.

Það eru því góð tíðindi fyrir íslenska ferðalanga að frá og með haustinu hyggst írska lággjaldafélagið Ryanair fljúga frá Kaupmannahöfn til þrjátíu og fjögurra borga í Evrópu samkvæmt frétt Politiken. Hyggst félagið minnka umsvif sín á Spáni verulega til að geta sinnt danska markaðnu sem skildi. En þar hefur baráttan milli lággjaldaflugfélaganna verið það hörð að Sterling fór á hausinn öðru sinni nú í sumar og fransk-hollenska félagið Transavia gaf eftir sitt pláss á vellinum.

NÝJAR GREINAR: Vökvabannið framlengt
TENGDAR GREINAR: Himinhátt prentunargjald Ryanair

Mynd: CPH