Snjallsímavæðing í fluggeiranum

Það styttist í að hægt verði að bóka flug með WOW air með nýju snjallsímaforriti. Icelandair og Iceland Express hyggjast einnig auka símþjónustuna hjá sér.

Það bætist hratt við úrvalið af snjallsímaforritum (apps) sem eiga að auðvelda túristum að ná áttum á ókunnugum stöðum, finna bestu veitingahúsin, bóka hótel o.s.frv. Flugfélög hér heima og erlendis eru eitt af öðru að prófa sig áfram á þessu sviði. Icelandair er til dæmis með sérstaka heimasíðu sem er sérstaklega hönnuð fyrir farsíma með vafra. Notendurnir þurfa þó að vera nettengdir til að geta nýtt sér hana en Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúa Icelandair, segir að fyrirtækið sé að skoða valkosti sem vinni með vef-appinu sem nú er til staðar.

WOW air að verða klár

„Í appinu okkar, sem er væntanlegt innan skamms fyrir bæði iPhone og Android síma, verður hægt að bóka flug, farþegar geta haldið utan um bókun sína, fengið upplýsingar um komu og brottfaratíma ásamt því að geta skoðað upplýsingar um áfangastaði,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir talskona WOW air um app fyrirtækisins sem er væntanlegt á næstunni. Fyrirtækið stígur stórt skref með þessu framtaki því félög eins og SAS og Norwegian hafa dregið lappirnar í þessum málum. Það síðarnefnda hleypti þó af stokkunum einföldu appi í síðustu viku sem nýtist ekki til að bóka flugmiða.

Hjá Iceland Express fengust þær upplýsingar að málið væri til skoðunar og þessi þjónusta kæmi vel til greina.

TENGDAR GREINAR: Flugvellir sem hampa snjallsímum Ferðatrygging í símanum