Á heima­velli: Georg í Madríd

Georg Haraldsson og fjöl­skylda eru flestum hnútum kunn í höfuð­borg Spánar eftir að hafa verið þar í námi fyrr á árinu. Þau deila hér með lesendum uppá­halds­stöð­unum sínum í borg­inni og öðrum sem túristar gætu haft gaman af að heim­sækja.

Leik­vellir og lista­verk

El Retiro er stór almenn­ings­garður í hjarta Madrídar með marga leik­vellir og svæði til þess að fara í laut­ar­ferð. Um helgar stilla lista­menn þar upp verkum sínum og selja gersemar sínar. Einnig er boðið upp á brúðu­leikhús fyrir börnin. Í miðjum garð­inum er stórt vatn þar sem hægt er að leigja árabát fyrir lítið (€5) og í Krist­als­höll­inni eru yfir­leitt ókeypis list­sýn­ingar. Ótal göngu­stígar liggja um garðinn sem gaman er að villast í.”

Tvö skemmtileg hverfi

Salamanca er fyrir ofan El Retiro garðinn. Í hverfinu leynast ótal búðir, bæði litlar og stórar, auk útibúa frá öllum helstu stóru tísku­merkj­unum. Gaman er að rölta niður Calle Jose Ortega y Gasset og „window sjoppa” í fínu búðunum.  Einnig eru aragrúi af búðum og veit­ing­ar­stöðum á Calle de Goya, Calle de Velázquez og Calle de Serrano. Á Serrano, sem liggur í gegnum allt Salamanca hverfið, er að finna vöruhús El Corte Ingles sem selur allt milli himins og jarðar. Þar fá ferða­menn 10% auka­afslátt af flest öllu sem þar er selt auk 18 prósent tax free endur­greiðslu. Þarna er því hægt að gera góð kaup.

Uppá­halds veit­inga­stað­urinn okkar í Salamanca var án efa Le Pain Quotidien eða „daglegt brauð”. Þar er hægt að fá sér hollan og góðan morg­unmat, hádeg­ismat eða kvöldmat. Í hverfinu er fullt af tapas stöðum, t.d. Lateral, Teatriz og Mas Q Menos svo einhverjir séu nefndir. Þess má geta að Salmanca er eitt af fínustu hverfum Madrid borgar og því er verð­lagið á veit­inga­stöðum þar oft aðeins hærra en í öðrum hverfum.

La Latina hverfið, sem er rétt hjá Puerta Del Sol og Mercado de San Miguel (sjá neðar), einkennist af þröngum götum með börum, kaffi­húsum, tapas stöðum og litlum sérversl­unum. Á sunnu­dögum er þar haldinn stór útimark­aður sem heitir El Rastro. Mark­að­urinn er alltaf mjög fjöl­mennur og er best að mæta snemma til að sleppa við mesta mann­hafið, en mark­að­urinn er opinn frá klukkan 9 til 15 alla sunnu­daga. Á El Rastro er hægt að finna ýmsan varning, bæði nýjan og notaðan og er því gott að vera með nóg af seðlum ef maður finnur eitt­hvað fallegt.”

Skyldu­stopp fyrir sælkera

„Matar­mark­að­urinn Mercado de San Miguel er án efa sá staður sem mun kæta matgæð­inga hvað mest í Madríd. Þetta er líka einn af okkar uppá­halds­stöðum í borg­inni. Mark­að­urinn er stað­settur í stórum gler­skála rétt hjá Puerta Del Sol, í miðbæ Madrídar. Veit­ing­arnar eru oftast borð­aðar á staðnum til að upplifa stemmn­inguna sem mark­aðnum fylgir sem best. Margar tegundir af mat og drykk eru í boði, allt frá fingramat og ostum upp í ostrur, sushi, fínustu rauðvín og kobekjöt. Þarna er líka bakarí og ísbúð og þeir sem eiga leið hjá mega ekki gleyma að fá sér jógúr­tísinn með fersku ávöxt­unum, hann var mjög vinsæll hjá okkur.

Það er alltaf mikið að gera á Mercado de San Miguel og því borgar sig að vera þolin­móður ef maður vill borða inni við borð. Maturinn er í öllum verð­flokkum og ættu því allir að geta fundið sér eitt­hvað við sitt hæfi.

Madrid er með öruggari borgum í Evrópu, en vasa­þjófar geta leynst víða og er það oft ólík­leg­asta fólkið sem er að stela.”

TENGDAR GREINAR: Greta Mjöll í BostonBjörgvin Ingi í Chicago