Borgirnar þar sem er ódýrast að gista

Það er flogið beint frá Íslandi til tveggja af þeim tíu borgum sem skipa listann yfir þær ódýrustu þegar kemur að hótelgistingu.

Verðlag í Asíu er alla jafna hagstætt fyrir vestræna ferðamenn. Það kemur því ekki á óvart að borgir í þessum heimshluta raða sér í flest sæti á lista hótelbókunarsíðunnar Hotels.com yfir þá staði þar sem gisting kostar minnst.

Hvergi er meðalverðið lægra en í höfuðborg Víetnam, Hanoi. Þar borga hótelgestir að jafnaði 6700 krónur fyrir herbergið samkvæmt þeim pöntunum sem gerðar eru í gegnum Hotels.com.

Lágt verð í Vilníus

Iceland Express hóf að fljúga til höfuðborgar Liháen í sumar. Þeir Íslendingar sem hafa nýtt sér það í sumar hafa sennilega ekki þurft að borga meira en rúmar níu þúsund krónur fyrir gistingu í borginni. Það er aðeins minna en ferðamenn borga í Riga í Lettlandi og í Búdapest. En þessar þrjár borgir eru fulltrúar Evrópu á listanum.

Orlandó ódýrust vestanhafs

Bandaríkin eiga einn fulltrúa í hópi þeirra ódýrustu. Það er Orlandó á Flórída en borgin er mörgum Íslendingum kunn því Icelandair hefur boðið upp á reglulegar ferðir þangað um langt árabil.

Ódýrustu hótelborgirnar og meðalverðið

  1. Hanoi í Víetnam (6700 kr.)
  2. Manilla á Filipseyjum (8750 kr.)
  3. Vilníus í Lítháen (9100 kr.)
  4. Peking í Kína (9250 kr.)
  5. Sharm el-Sheikh í Egyptalandi (9300 kr.)
  6. Bangkok í Taílandi (9500 kr.)
  7. Riga í Lettlandi (9650 kr.)
  8. Orlandó í Bandaríkjunum (10.200 kr.)
  9. Búdapest í Ungverjalandi (10350 kr.)
  10. Sjanghæ í Kína (10500 kr.)

TENGDAR GREINAR: Dýrustu og ódýrustu borgirnar eftir að dimma tekur

Mynd: Túristi