Brösuleg byrjun Berlínarflugvallar

Í sumarbyrjun átti að vígja hinn nýja glæsilega Brandenburg flugvöll í Berlín. Opnuninni var seinkað til næsta vors en nú er útlit fyrir enn frekari tafir. Stærstu flugfélög Þýskalands hóta málsókn vegna slóðaskaparins.

Það er búist við að þrjátíu milljón farþegar muni árlega fara um hinn nýja Berlínarflugvöll þegar hann opnar. Það stóð til að taka hann í gagnið fyrir þremur mánuðum síðan en því var seinkað til 17. mars næstkomandi.

Formaður samgöngunefndar þýska þingsins lét hins vegar hafa það eftir sér nýverið að útlit væri fyrir að völlurinn verði ekki tilbúinn fyrr en á seinni helmingi næsta árs. Forsvarsmenn Berlínarflugvallar vilja þó ekki staðfesta þetta og segjast vinna að því að taka á móti fyrstu farþegunum í vor samkvæmt frétt Jótlandspóstsins. En mikil aukning hefur verið í komum erlendra ferðamanna til borgarinnar síðustu ár.

Tvö stærstu flugfélög Þýskalands, Lufthansa og Airberlin, hafa hótað því að fara í skaðabótamál vegna seinagangsins sem hefur kostað þau mikil óþægindi.

Yfir sumarið fljúga Airberlin, Iceland Express, Lufthansa og WOW air milli Keflavíkur og Berlínar. Það síðastnefna hyggst fljúga til borgarinnar í allan vetur en Iceland Express tekur hlé yfir háveturinn.

Smelltu hér til að skoða tölvuteikningar af nýja flugvellinum

TILBOÐ: 5% afsláttur á gistingu í Berlín
TENGDAR GREINAR: Hætta aftur við Berlín

Teikningar: Björn Rolle/Berlin Airport