Fáir í rússibana í rigningu

Tívolí í Kaupmannahöfn hefur verið rekið með tapi á fyrri hluti ársins. Ástæðan er sögð votviðrið sem einkennt hefur sumarið í Danmörku í ár.

Þó veðrið leiki við Dani akkúrat þessa dagana þá gerði rigning mönnum þar lífið leitt í júní og júlí. Forsvarsmenn Tívolí bera sig því frekar illa og segja gestum skemmtigarðsins hafa fækkað frá síðasta sumri og reksturinn sé í mínus.

Ferðamannastraumur til Danmerkur hefur hins vegar verið með ágætum í sumar en svo virðist sem túristar kjósi heldur að verja tíma sínum í aðra afþreyingu en tívolítæki þegar rignir.

Samkvæmt frétt Politiken er búist við að Tívolí muni skila hagnaði þegar árið er gert upp. Ástæðan er sú að ræst hefur úr veðrinu nú á seinni hluta sumarsins og aðsóknin því góð. Jólavertíðin skilar líka ávallt mörgum dönskum krónum í kassann.

TILBOÐ: 5% afsláttur á ódýru hóteli í Köben

Mynd: Denmark Media Center