Fargjöld Iceland Express hækka

Við getum ekki lengur búist við að verð á farmiðum til útlanda lækki eftir því sem nær dregur brottför. Iceland Express hækkaði fargjöld sín til London um fimmtung eftir fréttir af samdrætti WOW air.

Mánaðarlegar verðkannanir Túrista hafa sýnt að fargjöld Iceland Express og WOW air til London og Kaupmannahafnar hafa lækkað þegar nær dregur brottför í sumar. Tilboð félaganna hafa líka verið mjög áberandi síðustu mánuði. En nú virðist verðstríðinu lokið.

Í gær sagði Túristi frá samdrætti hjá WOW air. Í kjölfarið hafa verðin hækkað hjá Iceland Express samkvæmt könnunum síðunnar sem gerðar voru í gær og í dag. Samanburður á niðurstöðum þessara tveggja verðkannana leiðir í ljós að fargjöld Iceland Express, til London um mánaðarmótin október-nóvember, hækkuðu um 7000 krónur á síðastliðnum sólarhring. Hækkunin nemur rúmum fimmtungi. Verð félagsins til Kaupmannahafnar, á sama tíma, hækkuðu um rúm 6 prósent frá því í gær. Verðskrá Icelandair stóð í stað. Munurinn á verðum þessara tveggja félaga er því minni nú en hann hefur verið í sumar samkvæmt athugunum síðunnar.

easy Jet nú ódýrast

Dregið hefur úr bókunum Íslendinga hjá easyJet eins og fram kom hér í síðustu viku. Félagið hefur alla jafna verið mun dýrari kostur en Iceland Express og WOW air samkvæmt verðkönnununum. Nú er staðan hins vegar önnur því farið með easyJet í viku 36 (3.-9.sept) og viku 44 (29.okt-4.nóv) er það ódýrasta á markaðnum. Kostar farmiðinn í byrjun september 31.077 krónur hjá easyJet, tæpar 32 þúsund hjá WOW air, 39.400 hjá Iceland Express og farið hjá Icelandair er á 42.760 krónur. Sjá töflu á næstu síðu.

Rúm 40 prósent hækkun

Í könnunum Túrista í júní og júlí kom í ljós að fargjöld Iceland Express og WOW air voru alla jafna lægri ef bókað var fjórum vikum fyrir brottför en ef pantað var með 12 vikna fyrirvara. Sá sem bókaði seinna sparaði sér allt að fimmtung af því verði sem var í boði átta vikum fyrr. Nú hafa orðið breytingar á. Farþegi sem bókaði 12. júlí far með Iceland Express til London í byrjun september (viku 36) greiddi 27.928 krónur. Í dag kostar farið 39.400 krónur. Verðmunurinn er 41% eins og sést á töflunni hér fyrir neðan. WOW air hefur líka hækkað sitt verð og nemur hækkunin tæpum sjö prósentum. Fargjöld easyJet og Icelandair lækkuðu hins vegar. Tekið skal fram að verð í könnunum Túrista eru hefðbundin verð, ekki tilboðsverð.

Lægstu fargjöld, báðar leiðir, til London í viku 36 (3.-9. september) ef bókað með tólf vikna fyrirvara og fjögurra vikna.

London Bókað í dag Bókað 12.júní
Breyting
easyJet* 31.077 kr. 31.962 kr. -2,8%
Iceland Express 39.400 kr. 27.928 kr. +41%
Icelandair 42.760 kr. 43.240 kr. -1,1%
WOW air 31.939 kr. 29.939 kr. +6,7%

Dregur saman með Icelandair og Iceland Express

WOW air hefur ákveðið að hætta flugi til Kaupmannahafnar eftir miðjan september. Fram að þeim tíma eru aðeins tvö flug í viku og kostar farið í viku 36 töluvert meira hjá þeim en Icelandair og Iceland Express. Munurinn á fargjöldum síðarnefndu félaganna í viku 36 var töluverður í verðkönnun 12. júní. Þá munaði tæpum tíu þúsund krónum á ódýrustu farmiðunum, báðar leiðir, til Kaupmannahafnar. Í dag er munurinn rúmar þrjú þúsund krónur. Verð Iceland Express hefur hækkað um fimmtung en örlítil lækkun hefur átt sér stað hjá Icelandair.

Lægstu fargjöld, báðar leiðir, til Kaupmannahafnar í viku 36 (3.-9. september) ef bókað með tólf vikna fyrirvara og fjögurra vikna.

Kaupmannahöfn Bókað í dag Bókað 12. júní
Breyting
Iceland Express 35.500 kr. 29.441 kr. +20,6%
Icelandair 38.830 kr. 39.130 kr. -0,8%
WOW air 47.820 kr. 37.820 kr. +26,4%

Í þessum mánaðarlegu könnunum Túrista eru fundin lægstu fargjöldin, báðar leiðir, til Kaupmannahafnar og London innan ákveðnar viku hjá hverju félagi fyrir sig. Gert er ráð fyrir að lágmarksdvöl í útlöndum sé tveir sólarhringar.

Smellið hér fyrir samanburð á verði í september og mánaðarmótin október-nóvember

TILBOÐ Á GISTINGU: 5% afsláttur á ódýru hótel í Kaupmannahöfn

Mynd: Visit London