Hátt farangursgjald WOW air

Fimm af þeim erlendu flugfélögum sem fljúga til Íslands rukka farþegana sérstaklega fyrir innritaðan farangur. WOW air hefur nú tekið upp þessa reglu en krefst nokkuð hærra gjalds fyrir þjónustuna en gengur og gerist.

WOW air tók til starfa í byrjun sumars og hefur allar götur síðan leyft farþegum að innrita eina ferðatösku án endurgjalds. Nú hafa forsvarsmenn félagsins ákveðið að venda kvæði sínu í kross og rukka 2900 krónur fyrir eina tösku en 5900 krónur fyrir tvær.

Farþegar hér á landi eru ekki ókunnugir þess háttar gjaldheimtu því fimm ef þeim félögum sem fljúga héðan krefjast sérstakrar greiðslu fyrir farangur sem ekki er tekinn með í farþegarýmið. Gjaldið er mismundandi eftir félögum en hæst er það hjá easyJet og nemur um 3300 krónum. Farangursgjaldið er hins vegar lægst hjá Norwegian eða tæpar 1500 krónur.

Næst dýrast hjá WOW

Farþegi sem fer með eina tösku, báðar leiðir, með WOW air borgar hér eftir 5800 krónur fyrir töskurnar því greiða þarf fyrir hvern fluglegg. Þetta er nokkru hærra en farþegar Airberlin, Transavia, German Wings og Norwegian þurfa að greiða þegar þeir fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli eins og sést á töflunni hér fyrir neðan. Farangursgjald WOW er t.a.m. nærri helmingi hærra en það sem farþegar German Wings og Norwegian borga.

Gjald fyrir eina innritaða tösku (hámarksþyngd 20 – 23 kg):

  1. easyJet: 3344 kr. (22 evrur)
  2. WOW air: 2900 kr.
  3. Airberlin: 2280 kr. (15 evrur)
  4. Transavia: 2280 kr. (15 evrur)
  5. German Wings: 1520 kr. (10 evrur)
  6. Norwegian: 1437 kr. (69 norskar kr.)

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Verðkönnun á flugvélamat
NÝJAR GREINAR: Með áratugareynslu af samkeppni

Mynd: Víkurfréttir