Hingað getur þú flogið beint í vetur

Það verður boðið upp á áætlunarflug til 30 borga frá Keflavík í vetur. Hér eru þær allar og upplýsingar um hvernig þú kemst á staðinn.

Ferðaglaðir Íslendingar ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á vetrardagskrá þeirra sex félaga sem halda úti áætlunarflugi frá Keflavík í vetur. Áfangastaðirnir eru þrjátíu talsins og hafa tveir þeirra ekki áður verið á vetrardagskrá Keflavíkurflugvallar. Það er bandaríska borgin Denver og Salzburg í Austurríki. Tilkoma þeirra ætti að gleðja skíðaáhugafólk því þær eru báðar í nágrenni við þekktustu skíðasvæði veraldar.

Á þremur flugleiðum ríkir meiri samkeppni en við eigum að venjast. Þannig munu fjögur félög keppa um farþega til og frá London, þrjú um hylli þeirra sem ætla til Oslóar og tvö fara til Kaupmannahafnar.

Borgirnar 30:

Alicante

Þeir eru greinilega margir hér á landi sem lengja sumarið með því að dvelja á suðurhluta Spánar í byrjun hausts. Þangað fljúga því Iceland Express, Icelandair og WOW air fram til loka október.

Amsterdam

Höfuðborg þessa litla en þéttbýla lands hefur lengi verið hluti af leiðarkerfi Icelandair. Félagið flýgur þangað daglega í haust en fækkar ferðum niður í þrjár til fimm í vetur.

Barcelona

Spænski boltinn byrjar að rúlla í lok sumars og því miður fyrir fótboltaunnendur þá hefur áætlunarflug til borgarinnar hætt á sama tíma. En í ár lengir Iceland Express tímabilið örlítið og flýgur til Barcelona fram í miðjan október. Það er því séns að fljúga beint á Camp Nou í haust.

MEIRA UM BARCELONA: Vegvísir fyrir Barcelona

Bergen

Bæjarstæði Bergen er ákaflega fallegt. Fjörðurinn og fjöllin setja sterkan svip á þessa huggulegu borg. Fiskmarkaðurinn við bryggjuna er svo eitthvað sem borgaryfirvöld í Reykjavík mættu apa eftir. Icelandair flýgur þrisvar í viku til Bergen í vetur.

Berlín

Höfuðstaður Þýskalands er orðinn vinsælasti áfangastaður Dana á leið í borgarferð. Hylli Berlínar meðal Íslendinga er ekki jafn mikil. Það á kannski eftir að breytast enda leit að vestrænni heimsborg þar sem verðlagið er jafn gott. WOW air ætlar að fljúga til borgarinnar tvisvar í viku í vetur en Iceland Express tekur pásu á Berlínarflugi sínu í lok október og tekur upp þráðinn að nýju í enda mars.

Billund

Það búa þúsundir Íslendinga á Jótlandi og því margir sem fagna því að geta flogið til beint til Billund í stað þess að millilenda í Kaupmannahöfn eða Hamborg á leið til fjölskyldu og vina. Icelandair flýgur til heimaborgar Lego fram í lok október.

MEIRA UM BILLUND: Besti veitingastaður Norðurlanda

Boston

Borgin sem laðar til sín fjömarga verslunarglaða Íslendinga er á dagskrá Icelandair í vetur. Það er þó þess virði að taka sé pásu frá búðarápinu og kynna sér allt hitt sem borgin hefur upp á að bjóða.

Brussel

Matgæðingar komast í feitt í þessari fallegu borg sem á alls ekki skilið titilinn „Leiðinlegasta höfuborg Evrópu“. Jafnvel þó diplómatar séu þar fleiri en góðu hófu gegni. Icelandair býður upp á flug til höfuðborgar Belgíu fram í lok október.

Denver

Þessi nýjasti áfangastaður Icelandair verður vafalítið vinsæll meðal skíðaáhugafólks hér á landi. Klettafjöllin, sem standa þétt að baki Denver, hafa að geyma nokkur af þekktustu skíðasvæðum heims, t.d Aspen og Vail.

MEIRA UM DENVER: Borg í góðum tengslum við náttúruna

Frankfurt

Icelandair flýgur allt árið um kring til fjármálamiðstöðvar Þýskalands. Þaðan er svo auðvelt að finna flug til fjölmargra stærri og minni borga Evrópu.

Glasgow

Það tekur aðeins tvo tíma að fljúga í fang hina vinalegu Skota. Fjórum sinnum í viku fara vélar Icelandair til borgarinnar þar sem úrvalið í búðunum þykir gott og knæpurnar gleðja margan ferðamanninn.

Halifax

Fram í byrjun október er hægt að taka hús á íbúum Halifax og nágrennis. Það er Icelandair sem sér um ferðirnar líkt og undanfarin ár.

Helsinki

Höfuðborg Finnlands er hönnunarborg Evrópu í ár og því kjörinn áfangastaður fyrir þá sem vilja skoða verk skapandi fólks. Borgin var valin byggilegasta borg heims í fyrra og lífsgæðin eru því mikil meðal frænda okkar. Icelandair flýgur til borgarinnar fram að áramótum

SMELLIÐ HÉR: FRAMHALD Á NÆSTU SÍÐU