Hingað getur þú flogið beint í vetur

Kaupmannahöfn

Hann er vandfundinn sá Íslendingur sem hefur ekki gengið eftir Strikinu í Kaupmannahöfn. Þeir eru líka mýmargir landar okkar sem dvelja allt árið um kring í góðu yfirlæti meðal gömlu herraþjóðarinnar. Það því ekki að undra að loftbrú er milli Keflavíkur og Kastrup næstum allt árið um kring. Iceland Express og Icelandair fljúga þangað í vetur en þó mismargar ferðir.

MEIRA UM KÖBEN: Ódýrt hótel gefur lesendum Túrista 5% afsláttÞessi tvö eru kannski á leið á Moderna á Skeppsholmen í Stokkhólmi[/caption]

London

Hvað ætli margir hér á landi muni leggja leið sín til Lundúna í vetur til að sjá fótboltaleik? Svarið er væntanlega þúsundir. Það er því ekki að undra að framboð á flugi til borgarinnar er svona mikið. Icelandair mun fjölga ferðum sínum þangað í vetur því félagið hyggst fljúga til Gatwick flugvallar og Heathrow frá og með október. Iceland Express, WOW air og easyJet flytja líka fólk héðan til heimsborgarinnar nokkrum sinnum í viku.

Manchester

Fótboltaferðir til Manchester eru ekki síður vinsælar en ferðirnir til London. Í norðurhluta Englands halda nefnilega til mörg af þekktari liðum landsins. Þrjár ferðir í viku til borgarinnar eru á vetrardagskrá Icelandair.

Minneapolis

Hin risastóra verslunarmiðstöð Mall of America hefur lokkað marga til Minneapolis og mun líklega gera um ókomna tíð. Icelandair tekur sér vetrarfrí frá flugi til borgarinnar frá miðjum október.

Munchen

Velmegun er hvergi meiri í Þýskalandi en í Bæjaralandi. Þar er Munchen borg borganna. Þeir sem vilja heimsækja ólympíuborgina geta flogið þangað beint allt árið um kring með Icelandair.

New York

Heimsborgin á austurströnd Bandaríkjanna er uppáhalds borg margra. Hér er allt sem hugurinn girnist og nóg af því. Icelandair flýgur allt árið til borgarinnar.

MEIRA: Ísold á heimavelli í New York

Orlandó

Það er vinsælt að flýja skammdegið og kuldann hér heima og halda til Flórída á veturna. Þeir sem vilja sóla sig í þessum hluta heimsins geta fengið far með Icelandair í allan vetur.

MEIRA: Guðrún á heimavelli í Orlandó

Osló

Það ríkir mikil samkeppni um farþegana til höfuðborgar Noregs í vetur. Norwegian hefur nefnilega blandað sér í slaginn og lofar fríu neti í fluginu sem tekur um þrjá tíma. Icelandair og SAS fljúga oftar til borgarinnar en nýliðarnir.

París

Í sumar hafa fjögur félög boðið upp á flug til Parísar. Í vetur heltast þrjú þeirra úr lestinni og Icelandair mun eitt halda upp í áætlunarferðum til borgar ljósanna sem hefur lengi verið einn vinsælasti áfangastaður túrista.

MEIRA UM PARÍS: Kristín á heimavelli í París

Salzburg

Fæðingarborg Mozart er áfangastaður skíðaáhugafólks á veturna því í námunda við borgina er að finna mörg góð svæði fyrir vetraríþróttir. Jólamarkaður borgarinnar nýtur einnig mikillar hylli og svo hefur svona gömul og merk menningarborg líka upp á margt annað að bjóða. WOW air spreytir sig á vikulegu flugi til Salzburg í vetur.

Seattle

Flugið til norðvesturhluta Bandaríkjanna tekur sinn tíma en það truflar ekki þá sem vilja heimsækja Seattle. Icelandair hefur fjölgað ferðum sínum þangað og verða þær daglegur viðburður lungan úr vetri.

Stavanger

Icelandair flýgur til nokkurra áfangastaða í Noregi og Stavanger í suðurhluta landsins er ein þeirra.

Stokkhólmur

Ferðamálaráð borgarinnar hefur reitt kollega sína í Kaupmannahöfn og Osló til reiði með því að markaðssetja Stokkhólm sem “Capital of Scandinavia”. Hvað sem þessum deilum líður þá er enginn vafi á því að Stokkhólmur er meiri stórborg en hinar tvær. Flug til Stokkhólms á vegum Icelandair er í boði alla daga vikunnar.

MEIRA: Vegvísir fyrir Stokkhólm

Toronto

Fjölmennasta borg Kanada hýsir fólk frá öllum heimsins hornum sem krydda þar lífið og tilveruna. Icelandair flýgur til Toronto fram í byrjun nóvember.

Meira: Hótel heimamanna í Toronto

Varsjá

Pólverjar eru fjölmargir hér á landi og því er sennilega að þakka hversu góðar flugsamgöngurnar eru héðan til Varsjár. Iceland Express ætlar að fljúga tvisvar í viku til borgarinnar fram til loka október.

Washington DC

Áður fyrr voru það öll kennileiti borgarinnar sem fengu túrista til að gera sér ferð til Washington. Í dag er það ekki síður matarkúltúr borgarinnar og allt það sem hún hefur upp á að bjóða fyrir heimsborgara. Ekki skemmir heldur fyrir að aðgangur að flestum söfnum borgarinnar er ókeypis. Icelandair flýgur höfuðborgar Bandaríkjanna fjórum sinnum í viku.

Þrándheimur

Noregur nýtur ekki bara vinsælda meðal Íslendinga sem vilja spreyta sig í útlöndum heldur einnig meðal ferðamanna. Beint flug Icelandair til borgarinnar stendur fram yfir áramót.

Myndir: Visit Denver og Nicho Södling/imagebank.sweden.se