Komumst ekki hjá kreditkortagjaldi

Íslensk debetkort duga ekki í netviðskiptum. Farþegar hér á landi komast því ekki hjá kreditkortagjöldum erlendra flugfélaga.

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet leggur 2,5 prósent ofan á alla farmiða sem greiddir eru með kreditkortum. Hjá Norwegian nemur kortagjaldið um þúsund íslenskum krónum, óháð farmiðaverðinu. Frá og með október næstkomandi mun SAS bæta 2,2 prósentum við fargjald þeirra sem borga með kreditkortum. Þessi þrjú félög fljúga til Íslands allt árið.

Talsmaður SAS segir í viðtali við Aftenposten að árlega greiði félagið sem samsvarar 4 til 6 milljörðum íslenskra króna í þóknanir til kreditkortafyrirtækja. Nýja gjaldið á að koma til móts við þennan útgjaldalið félagsins.

Íslendingar hafa ekki val

Farþegar hér á landi komast ekki hjá þessari gjaldheimtu því ekki er hægt að nota íslensk debetkort til að greiða fyrir vörur á netinu. Debetkortin hér eru nefnilega ekki með númeraröð á framhlið né þriggja stafa öryggisnúmer. Debetkort víða annars staðar eru hins vegar númeruð og erlendir ferðalangar spara sér kortagjöld með því að borga með debetkorti öfugt við þá íslensku.

Breytingar í nánd

Samkvæmt heimildum Túrista þá er þess ekki langt að bíða að íslensk kortafyrirtæki og bankar hefji útgáfu debetkorta sem eru eins og þau útlendu. Með tilkomu þeirra geta íslenskir ferðamenn komist hjá að greiða kreditkortagjald erlendu flugfélaganna. Gjald sem getur numið nokkrum þúsundum króna við hverja pöntun.