Með áratugareynslu af samkeppni

Túristi lagði nokkrar spurningar um framtíðina fyrir Birki Hólm Guðnason, framkvæmdastjóra Icelandair.

Það stefnir í aukna samkeppni í flugi frá Skandinavíu til austurstrandar Bandaríkjanna á næsta ári. Framkvæmdastjóri Icelandair segir fyrirtækið sveigjanlegt og vant samkeppni. Hann segir flug til annarra heimsálfa, en Evrópu og N-Ameríku, ekki vera í spilunum. Túristi lagði nokkrar spurningar um framtíðina fyrir Birki Hólm Guðnason.

Er líklegt að leiðakerfi Icelandair nái út fyrir Evrópu og N-Ameríku innan tíu ára?

Aðaláhersla okkar næstu árin er að byggja upp og styrkja núverandi leiðakerfi milli Evrópu og Norður Ameríku í gegnum Ísland og jafna árstíðasveiflur. Við munum halda áfram að fylgjast með þróun og tækifærum á öðrum mörkuðum.  

Lággjaldaflugfélagið Norwegian hefur flug til New York frá Osló og Stokkhólmi á næsta ári og boðar lægri verð en nú þekkjast. Icelandair hefur lengi verið meðal þeirra sem bjóða lægstu fargjöldin milli meginlands Evrópu og Bandaríkjanna. Hvaða áhrif telurðu að tilkoma Norwegian muni hafa á fargjöld milli Skandinavíu og New York?

Samkeppni á Norður-Atlantshafi er ekki ný fyrir okkur, hún er það sem við höfum tekið þátt í áratugum saman, og náð að byggja upp og stækka okkar leiðakerfi við þær aðstæður. Fyrirtækið er sveigjanlegt og samkeppnishæft í kostnaði sem hefur, og mun, hjálpa okkur í samkeppni eins og hingað til. Verð á þessum markaði mun eins og alltaf taka mið af framboði og eftirspurn. Við fylgjumst vel með því sem er að gerast í kringum okkur og reynum að vera skrefi á undan.

Mun afþreyingakerfi, líkt því sem er í vélum Icelandair í dag, vera sett í farþegaþotur Icelandair næst þegar félagið fjárfestir í nýjum flugkosti? Eða horfið þið frekar til þess að bjóða upp á tæki eins og spjaldtölvur?

Okkar plön miðast við að bjóða upp á afþreyingarkerfi og Internet tengingu í okkar flugflota og standa framarlega í því eins og verið hefur. Það er auðvitað ekki ljóst hvert tækniþróunin leiðir okkur hvað varðar tækjabúnaðinn, en við munum leggja áherslu á þennan þátt.

SAS mun á næstunni leggja sérstakt kortagjald ofan á alla farmiða sem greiddir eru með kreditkortum. Hver er þín skoðun á þessu nýja gjaldi SAS?

Við munum halda áfram að fylgjast með þróun á svoköllum hliðartekjum, sem þetta er hluti af, og tækifærum þar en ekki liggur fyrir ákvörðun um slíkt hjá Icelandair. Þetta er þróun sem flest flugfélög hafa verið að fylgja undanfarið.

Icelandair tilkynnti á föstudaginn að félagið myndi á næsta ári hefja flug til Anchorage í Alaska, Skt. Pétursborgar í Rússlandi og Zurich í Sviss.

TENGDAR GREINAR: Komumst ekki hjá kreditkortagjaldi
NÝJAR GREINAR: Georg á heimavelli í Madríd

Mynd: Icelandair