Spánn verður dýrari

Ríkisstjórn Spánar hefur ákveðið að hækka virðisaukaskattinn í landinu í von um að rétta þjóðarskútuna af. Ferðamálafrömuðir þar í landi eru óttaslegnir vegna málsins.

Hingað til hefur spænska ríkið aðeins lagt átta prósent ofan á verð gististaða, kráa og veitingahúsa. Hér eftir verður skatturinn hins vegar tíu prósent. Almennur virðisaukaskattur í landinu hækkar á sama tíma úr 18 í 21 prósent. Svartsýnir sérfræðingar áætla að hækkunin muni kosta átján þúsund störf í ferðaþjónustu Spánverja samkvæmt grein Dagens Næringsliv. Ástæðan er sú að túristar munu heldur velja að eyða fríinu í löndum eins og Tyrklandi þar sem verðlagið er nú þegar hagstæðara.

Spánn hefur lengi verið það land sem laðar til sín flesta íslenska ferðamenn og af úrvali ferðaskrifstofanna að dæma þá nýtur landið mikilla vinsælda meðal landans. Hvort það breytist við virðisaukahækkunina mun koma ljós. En samkvæmt grein norska blaðsins hafði það lítil áhrif á spænska ferðageirann þegar virðisaukinn var hækkaður úr 16 í 18 prósent fyrir tveimur árum síðan.

NÝJAR GREINAR: Fargjöld Iceland Express hækka

Mynd: Túristi