Svíar fjölmenna til Parísar

Það er roksala í Svíþjóð á fótboltaferðum til höfuðborgar Frakklands. Ástæðan er einföld, langvinsælasti knattspyrnumaður Svía spilar í borginni í vetur.

Hann hefur haldið sig í stórborgunum hann Zlatan Ibrahimovic síðan hann flutti frá Malmö og freistaði gæfunnar í útlöndum. Fyrst var það Amsterdam, svo Mílanó, þar á eftir Barcelona og aftur Mílanó. Nú er hann að koma sér fyrir í París og er ætlað að gera Paris St. Germain að stórveldi í evrópskri kanttspyrnu.

Fréttir af gangi mála hjá Zlatan eru fyrirferðamiklar í sænskum fjölmiðlum enda maðurinn stórstjarna í heimalandinu. Þessi mikla eftirspurn eftir Parísarferðum kemur sænskum ferðaskrifstofum því ekki í opna skjöldu samkvæmt frétt DN. Þar kemur fram að landar Zlatans hafi alltaf verið duglegir við að fylgjast með honum í útlöndum allar götur síðan hann hóf að leika með Ajax í Amsterdam.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir París

Mynd: Wikicommons