Verðkönnun á flugvélamat

Það er ekki mikill verðmunur á milli félaga þegar kemur að föstu fæði en öðru máli gegnir um drykkina.

Þó flugið yfir á meginland Evrópu sé ekki langt þá panta langflestir sér einhverjar veitingar um borð. Þetta sýna niðurstöður lesendakönnunar Túrista frá því vetur sem nærri eitt þúsund svör fengust í. Þar kom fram að aðeins 9 prósent kaupa aldrei vott né þurrt í fluginu. Helmingurinn sagðist hins vegar alltaf eða oftast kaupa eitthvað.

Fríir drykkir á undanhaldi

Það eru sennilega fleiri sem kaupa sér eitthvað að drekka í háloftunum en að borða. Hjá Icelandair þarf ekki að borga fyrir óáfenga drykki og hjá SAS er kaffi og te frítt. Hjá hinum félögunum þarf að greiða fyrir allt. Kaffibollinn hjá easyJet, Iceland Express og WOW air kostar til að mynda um fjögur hundruð krónur. Hjá Norwegian tæpar fimm hundruð.

Nærri tvöfaldur munur á brauði

Samlokur eru áberandi á matseðlum félaganna. Hjá Iceland Express eru þær ódýrastar og kosta nærri því helmingi minna en brauðið hjá Norwegian eins og sjá má á töflunni á næstu síðu. Ein ástæðan fyrir því að SAS og Norwegian koma illa út úr verðsamanburðinum er hátt gengi norsku krónunnar. Það er því ástæða til að benda þeim sem fljúga til Oslóar með þessum tveimur að þeir geta sparað sér allt að fjórðung af veitingaverðinu með því að borga með dönskum krónum um borð. Sú danska hefur lækkað undanfarið en ekki hefur verið tekið tillit til þess í verðlistum Norwegian og SAS.

Börn fá bara frítt hjá Icelandair

Barnabox með léttum mat og snarli fyrir þau yngstu eru í boði hjá Iceland Express, easyJet og Icelandair. Það síðastnefnda rukkar börn yngri en 11 ára ekki fyrir boxið en til samanburðar kostar barnabox Iceland Express 590 krónur og 750 hjá easyJet.  Máltíð fyrir barnafjölskyldu verður því mun ódýrari hjá Icelandair en hjá hinum félögunum (sjá töflu á næstu síðu). Kostar hún rúmar tvö þúsund krónur sem er þrefalt lægra en hjá SAS og Norwegian. Máltíð fyrir einstakling kostar líka langminnst hjá Icelandair þar sem aðeins þarf að greiða fyrir samlokuna en ekki drykkina. Munar 480 krónum á Icelandair og Iceland Express sem er næst ódýrasti kosturinn (sjá töflu á næstu síðu).

Túristi kannaði verðlag á veitingum hjá þeim sex félögum sem halda uppi millilandaflugi héðan allt árið. Þar var stuðst við upplýsingar af heimasíðum félaganna og miðað við verð á ódýrasta farrými þegar það á við. Ekkert mat er lagt á gæði veitinganna.

Smelltu hér til að sjá niðurstöðurnar