WOW dregur saman seglin í vetur

Kaupmannahöfn er ekki lengur á vetraráætlun WOW air og félagið mun aðeins fljúga tvisvar í viku til London. Ástæðan er mikill samdráttur í ferðalögum yfir vetrarmánuðina að sögn framkvæmdastjóra félagsins.

Forsvarsmenn WOW air hafa ákveðið að draga enn frekar úr starfsseminni í vetur. Félagið mun því ekki að fljúga til Kaupmannahafnar eftir miðjan næsta mánuð. Ferðum félagsins til London verður einnig fækkað niður tvær á viku. Flogið verður til Gatwick flugvallar í London í vetur en ekki Stansted líkt og gert hefur verið í sumar.

Baldur Oddur Baldursson, framkvæmdastjóri WOW air, segir í samtali við Túrista að ástæðan fyrir breytingunum sé sá mikli samdráttur sem eigi sér stað í ferðaþjónustunni á veturna. Hann telur því ekki vera markað fyrir fleiri flug en nú er lagt upp með. Auk ferðanna til London verður boðið upp á tvö flug í viku til Berlínar í allan vetur og til Alicante fram í lok október. Yfir háveturinn verður vikulegt flug til Salzburg í Austurríki.

WOW air hefur hingað til verið með tvær flugvélar á leigu en mun skila annarri þegar nýja vetraráætlunin er komin í gagnið.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Verðkönnun á flugvélamat

Mynd: Víkurfréttir