Berlínarflugvelli seinkar enn og aftur

Ferðamenn í Berlín verða áfram að sætta sig við að fara um hina slitnu Schönefeld-flugstöð því þýska brunavarnaeftirlitið er ekki til í að gefa þeirri nýju samþykki sitt.

Í byrjun júní átti að taka í notkun nýjan flugvöll í Berlín. Opnuninni var hins vegar frestað til vorsins fyrst um sinn en nú hafa forsvarsmenn vallarins gefið út að 27. október á næsti ári verði dagurinn sem allt fer í gang á Berlin-Brandenburg flugvellinum. Brösuleg byrjun vallarins þykir mikill áfellisdómur fyrir þýsku verkfræðingastéttina sem hefur verið þekkt fyrir áreiðanleika víða um heim.

Ein helsta ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að reka smiðshöggið á Berlin-Brandenburg er sú að eldvarnir bygginganna hafa ekki staðist skoðun. Samkvæmt fréttum þá mun töfin nú kosta aukalega um 150 milljarða íslenskra króna og það liggur víst ekki fyrir hver muni taka þann skell á sig. Borgaryfirvöld og þýska ríkisstjórnin deila um það.

Allir eiga að lenda á sama stað

Nýi völlurinn á að leysa af hólmi Tegel flugstöðina í norðvesturhluta borgarinnar og Schönefeld í suðausturhorninu. Mun hann standa við hlið þess síðarnefnda og notast við sömu flugbrautir. Vegna framkvæmdanna hefur ekki miklu fé verið varið í viðhald á gömlu flugstöðvunum eins og þeir þekkja sem farið hafa til Berlínar undanfarið. Schönefeld er til að mynda farin að láta verulega á sjá og öll aðstaða er þar frekar bágborin.

Íslendingar fjölmenna til Berlínar

Búist er við að þrjátíu milljón farþegar muni árlega fara um hinn nýja Berlínarflugvöll þegar hann opnar. Íslenskir túristar verða þar fjölmargir því á síðasta ári fjölgaði gistinóttum Íslendinga í borginni um rúmlega fjörtíu af hundraði og hátt í tíu þúsund farþegar flugu frá Keflavík til Berlínar á síðasta ári. Það var aukning um nærri tvo þriðju.

Yfir sumarið fljúga Airberlin, Iceland Express, Lufthansa og WOW air milli Keflavíkur og Berlínar. Það síðastnefna flýgur til borgarinnar allt árið.

Smelltu hér til að skoða tölvuteikningar af nýja flugvellinum

TILBOÐ: 5% afsláttur á gistingu í Berlín
TENGDAR GREINAR: Miklu fleiri Íslendingar til Berlínar

Teikningar: Björn Rolle/Berlin Airport