Bjórborgin Denver

John Hickenlooper sló í gegn sem bruggari og bareigandi í Denver. Hann varð síðar borgarstjóri þar í bæ og er núna fylkisstjóri Colorado. John á stóran þátt í því að Denver er talinn fremsta bjórborg Bandaríkjanna.

Það þykir orðið frekar plebbalegt vestanhafs að biðja barþjón um Budweiser eða Miller. Nú vill fólk miklu frekar smakka á bjórum sem bruggaðir eru í nágrenninu og hafa einhvern karekter. Og hvergi þykir úrvalið af þess háttar öli meira og betra en í Denver að mati lesenda bandaríska ferðaritsins Travel+Leisure.

Ein helsta ástæðan fyrir því að bjórmenningin blómstrar í borginni er John Hickenlooper, fyrrum borgarstjóri og núverandi fylkisstjóri Colorado. Hann var fyrsti bareigandinn í borginni sem bruggaði sinn eigin bjór og hitti framtak hans svo rækilega í mark að hann rúllaði fyrst upp kosningum til borgarstjóra (87% atkvæða) og svo til fylkisstjóra.

Það blundaði greinilega bruggari í mörgum sveitungum hans því nú er að finna gott úrval af börum í borginni þar sem áhersla er lögð á gæði frekar en magn. Sá frægasti er Winkoop Brewing Company þar sem fylkisstjórinn hóf feril sinn fyrir aldarfjórðungi síðan.

Ferðamálayfirvöld í Denver eru nú farin að markaðssetja borgina sem áfangastað fyrir vandláta bjórþambara eins og sjá má á myndbandinu hér fyrir neðan. Denver er innan seilingar fyrir ölþyrsta hér á landi því Icelandair flýgur til borgarinnar fjórum sinnum í viku.