Brottförum fjölgaði um tíund

Farþegaþotur hófu sig til lofts frá Keflavíkurflugvelli nærri fjórtán hundruð sinnum í júlí síðastliðnum. Þetta er aukning upp á nærri tíu prósent frá sama tíma í fyrra. Icelandair stóð fyrir miklum meirihluta ferðanna.

Erlendum ferðamönnum fjölgar hér á landi og ferðagleði Íslendinga eykst samkvæmt mælingum Ferðamálastofu. Það kemur því ekki á óvart að fjöldi flugferða til og frá landinu eykst á sama tíma. Talning Túrista leiðir í ljós að í júlí síðastliðnum fóru 1381 farþegavél í loftið frá Keflavíkurflugvelli. Það er aukning upp á 9,5% frá árinu á undan. Júlí er háannatími í ferðaþjónustunni og á veturna fækkar ferðunum mikið.

Icelandair með tvær af hverjum þremur ferðum

Það er ekkert félag sem stendur fyrir jafn mörgum brottförum og Icelandair. Í júlí í ár og í fyrra er hlutfall ferða félagsins 64 prósent af öllu farþegaflugi frá Keflavíkurflugvelli. Það er örlítið minna en í júní þegar hlutdeild félagsins var 68,5 prósent. Ferðum Icelandair frá landinu fjölgaði um 9,75 prósent í júlí í samanburði við sama tíma í fyrra og voru brottfarirnar tæplega 900 talsins.

Helmings minnkun hjá Iceland Express

Það hafa orðið miklar breytingar á starfssemi Iceland Express á milli ára. Í fyrra flaug félagið til N-Ameríku en gerði hlé á því flugi í sumar. Ferðunum fækkaði því um 48 prósent á milli júlí í ár og í fyrra. Fyrirtækið er þó enn næststærsti aðilinn í millilandaflugi með 11,5 prósent af öllum brottförum. Hlutfallið var tæp 24 prósent á sama tíma á síðasta ári. Ferðir WOW air voru tæplega nítíu og vægi fyrirtækisins um 7 prósent eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Líkt og áður eru það Airberlin og SAS sem eru umsvifamestu erlendu flugfélögin á sumrin.

Vægi þeirra 5 stærstu á Keflavíkurflugvelli í júlí 2012:

  1. Icelandair 68,5%
  2. Iceland Express 11,5%
  3. WOW air 6,4%
  4. Airberlin 4,3%
  5. SAS 3,4%

NÝJAR GREINAR: Fjör á fjórtánda stræti í Washington
TENGDAR GREINAR: Vægi 5 stærstu í júní

Mynd: Wikicommons