Farið út hækkar í verði

Hjá þeim fjórum félögum sem fljúga héðan til London í vetur hafa fargjöld haustsins hækkað í verði síðustu vikur. Þetta er öfugt við verðþróun sumarsins þegar fargjöld WOW air og Iceland Express lækkuðu þegar nær dró brottför.

Um miðjan júlí kostaði ódýrasta farið, í fyrstu viku október, til London og tilbaka tæpar þrjátíu þúsund krónur. Ef miðinn er bókaður í dag kostar hann að lágmarki 31.900 krónur. Hækkunin nemur 8,5 prósentum. Ódýrasta farið til Kaupmannahafnar í byrjun október hefur hækkað um rúm ellefu prósent. Þetta er vísbending um að ekki verði áframhald á verðþróun sumarsins þegar verðkannanir Túrista sýndu endurtekið að fargjöld WOW air og Iceland Express lækkuðu þegar styttist í brottför.

WOW air ódýrast án þungs farangurs en Iceland Express með töskum

Það munar ekki ýkja miklu á verði Iceland Express, easyJet og WOW air til og frá London í byrjun október eins og sjá má í töflunni hér fyrir neðan. Hins vegar geta þeir sem ferðast aðeins með handfarangur komist með WOW air, fram og tilbaka, fyrir rúmar 27 þúsund krónur. Það er aðeins lægra verð en easyJet rukkar þá sem ferðast með lítinn farangur. Líkt og áður bætir Túristi aukagjöldum fyrir innritaðan farangur við fargjöldin í samanburði sínum. Farangursgjald WOW air er 2900 krónur, fyrir hvern fluglegg, en hjá easy Jet er gjaldið um 3400 krónur (22evrur).

Lægstu fargjöld, báðar leiðir, til London í viku 40 (1.-7. október) ef bókað með tólf vikna fyrirvara og fjögurra vikna.

London Bókað í dag Bókað 12. júlí
Breyting
easyJet* 34.357 kr. 32.603 kr. +5,4%
Iceland Express 31.900 kr. 29.400 kr. +8,5%
Icelandair 63.510 kr. 43.190 kr. +47%
WOW air* 32.928 kr. 29.939 kr. +10%

*easy Jet og WOW air rukka fyrir innritaðan farangur. Gjaldi fyrir eina tösku er bætt við fargjaldið í samanburðinum. Miðað er við gengi evru í dag í tilefelli easyJet.

Dýrara til Kaupmannahafnar

Það kostar meira að gera sér ferð til Köben í byrjun október en til London samkvæmt könnuninni. Lægsta verðið er hjá Iceland Express og nemur það tæpum 34 þúsund krónum. Það er fimm þúsund krónum minna en lægsta fargjald Icelandair til borgararinnar eins og sjá má hér fyrir neðan.

Lægstu fargjöld, báðar leiðir, til Kaupmannahafnar í viku 40 (1.-7. október) ef bókað með tólf vikna fyrirvara og fjögurra vikna.

Kaupmannahöfn Bókað í dag Bókað 12. júlí
Breyting
Iceland Express 33.900 kr. 30.500 kr. +11,1%
Icelandair 38.960 kr. 39.050 kr. +2,3%

EasyJet langódýrast í byrjun vetrar

Það kostar rúmar 25 þúsund krónur að fljúga með easyJet til London í viku 48 (26. nóv.-2.des). Breska félagið er mun ódýrari kostur en WOW air og Iceland Express þessa daga en íslensku fyrirtækin tvö hafa alla vega boðið betur en easyJet síðustu mánuði. Farmiðar til Kaupmannahafnar kosta hins vegar jafn mikið í október og í lok nóvember eins og sjá má á töflunni á næstu síðu (smellið hér).

Í þessum mánaðarlegu könnunum Túrista eru fundin lægstu fargjöldin, báðar leiðir, til Kaupmannahafnar og London innan ákveðnar viku hjá hverju félagi fyrir sig. Gert er ráð fyrir að lágmarksdvöl í útlöndum sé tveir sólarhringar.

Smellið hér fyrir samanburð á verði í október og nóvember

NÝJAR GREINAR: Fjör á fjórtánda stræti Washington

Mynd: Visit London