Ferðaminningar Atla Fannars

Atli Fannar, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar, á góðar minningar frá heimsóknum til frændþjóðanna en átti erfitt með að ná sambandi við heimamenn í Slóvakíu. Atli Fannar deilir hér nokkrum ferðasögum með lesendum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Fjögurra ára gamall fór ég til Spánar með foreldrum mínum og systur. Þetta var árið 1988 en amma mín og afi eiga hlut í húsi í Torrevieja. Ýmislegt úr ferðinni er minnisstætt. Ég sá í fyrsta skipti frosk og upplifði mikinn hrylling þegar ég ætlaði að skrúfa frá krana sem hann notaði sem hvíldarstað. Ég eignaðist líka fyrsta gæludýrið mitt. Það var snigill. Hann strauk í skjóli nætur. Þá var mér mikið strítt af þjónum veitingastaða sem létu eins og þeir hefðu aldrei séð ljóshærðan dreng áður og kipptu ítrekað í skottið mitt, en slík klipping þótti töff á þessum tíma. Er mér sagt.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Hróarskelda 2006 var algjör unaður. Okkur tókst að smala saman í hóp af miklum snillingum sem höfðu aldrei ferðast erlendis saman. Úr varð frábær ferð, sólin skein allan tímann, ótrúlegt magn af stórkostlegum hljómsveitum kom fram á hátíðinni og steikurnar á Jensen’s Bøfhus voru gómsætari en nokkru sinni fyrr, þó rækjukokkteillinn hafi haft leiðindar afleiðingar í för með sér.

Verst heppnaða utanlandsferðin:

Ég hef aldrei farið í misheppnaða utanlandsferð en viðhorf mitt til Slóvakíuferðar árið 2002 hefði mátt vera betra. Ég var 17 að verða 18 á miklu gelgjuskeiði og vann ferðina ásamt Völundi vini mínum í hönnunarsamkeppni Fjölbrautarskóla Suðurlands en við fórum út ásamt tveimur kennurum. Ég fann landinu allt til foráttu: Maturinn var ekki nógu góður, rúmin voru of hörð, sætu stelpurnar skildu mig ekki og ég ekki þær. Eftir á að hyggja var þetta samt frábær ferð. Ég fagnaði 18 afmælinu mínu úti með því að kaupa stærstu og rykugustu freyðivínssflösku sem ég hef séð. Innihaldið bragðaðist hræðilega en hvarf á dularfullan hátt eftir að ég fór að sofa.

Tek alltaf með í fríið:

Ég tek ekkert sérstakt með mér að heiman fyrir utan vegabréf og kreditkort. En ég er með ákveðna athöfn á flugvöllum sem má ekki klikka. Vegna mikillar flughræðslu mæti ég ávallt snemma í Leifsstöð og fæ mér nokkra bjóra til auðvelda mér svefn í fluginu. Ég geri það sama erlendis en kaupi alltaf tímarit þar sem spennan sem fylgir því að komast heim hjálpar ekki við svefninn, þrátt fyrir bjórsumblið.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Ég fékk stórkostlegt sushi í Færeyjum í fyrra en ekkert slær út 35 króna spagettíið á Hróarskeldu. Verst að miðað við gengið kostaði skálin 350 krónur þegar ég fór síðast en um 700 krónur í dag. Samt þess virði.

Uppáhaldsstaðurinn í útlöndum:

Ég á eflaust eftir að finna hann. Mér leið mjög vel í Svíþjóð. Væri til í að fara þangað oftar.

Draumafríið:
Asía. Ekki spurning.