Hóteltékk: Birger Jarl í Stokkhólmi

Gisting fyrir þá sem vilja búa á góðu hóteli og sleppa við eril miðborgarinnar en samt vera í göngufæri við allt saman.

Birger Jarl er hótel í stærri kantinum í útjaðri miðbæjarins. Verslunargötur og veitingastaðir eru innan seilingar og hið fallega hverfi, Östermalm, er hinum megin við götuna. Hótelgestir kynnast því annarri hlið á borginni en þeir sem halda sig í innsta kjarna miðborgarinnar.

Það kostar hins vegar sitt að dvelja á hóteli í Stokkhólmi og Birger Jarl er þar engin undantekning.

Þeir íslensku túristar sem vilja upplifa hverfisstemningu og sækja veitingastaði þar sem Stokkhólmsbúar, en ekki ferðamenn, eru í meirihluta ættu að gefa Birger Jarl gaum.

Herbergin

Einn helsti kostur hótelsins er hvað herbergin eru björt. Gluggarnir eru stórir og innréttingarnar í ljósum, náttúrulegum litum. Rúmin eru þægileg og baðherbergið nokkuð rúmt. Mubblurnar voru þó aðeins farnar að láta á sjá í herberginu sem útsendari Túrista gisti í. Sum herbergi hótelsins eru reyndar gluggalaus en þau eru jafnframt ódýrust.

Staðsetningin

Hótelið, líkt og breiðgatan sem það stendur við, dregur nafn sitt frá jarlinum Birger sem talinn er hafa lagt grunninn að höfuðborginni á þrettándu öld. Birger Jarlsgatan er falleg, gróin breiðgata sem gaman er að rölta niður í bæ og þeir sem hafa gaman að göngutúrum verða því ekki sviknir af þessu tuttugu mínútuna rölti í miðborgina. Þeir áttaviltustu ættu meira að segja að rata auðveldlega. Strætó stoppar rétt við hótelið og það tekur um fimm mínútur að ganga á Rådmansgatan lestarstöðina. Þangað er auðvelt að komast frá aðallestarstöðinni sem auðveldar ferðalagið til og frá Arlanda flugvelli.

Maturinn

Morgunmatur fylgir með í kaupunum og er hann frekar hefðbundinn. Matsalurinn er notalegur og því fínt að byrja daginn þar. Einnig er hægt að kaupa hádegismat á hótelinu. Það þarf þó ekki að fara langt frá hótelinu til að finna mjög góða matsölustaði.

LESIÐ EINNIG: Hádegismatur fyrir séða sælkera í Stokkhólmi

Verðið

Gisting í höfuðborg Svía eru alla jafna dýr. Birger Jarl hótelið er þar engin undantekning því nóttin kostar sjaldnast mikið minna en 2000 sænskar (um 35000 íslenskar). Það er ókeypis nettenging á hótelinu.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir Stokkhólmur

Myndir: Hotell Birger Jarl