Hóteltékk: Josty-Brauerei í Berlín

Ódýrt og vel staðsett íbúðahótel í höfuðborg Þýskalands.

Berlín er stór og hverfin mörg og það getur skipt sköpum að gista á góðum stað til að tapa ekki of miklum tíma í ferðalög innan borgarinnar. Josty Braueri í Mitte hverfinu er gististaður í ódýrari kantinum sem hentar fjölskyldum og hópum vel. Lesendur Túrista fá afslátt á gistingunni.

Staðsetningin

Íbúðahótelið Josty-brauerei er óneitanlega vel staðsett. Það er í Mitte, miðju Berlínar í bókstaflegri merkingu. Í hverfinu er nóg af góðum veitingastöðum, kaffihúsum og búðum. Í Auguststraße er margt skemmtilegra veitingastaða og bara og hún er í 5-10 mínútna göngufjarlægð. Ekki spillir síðan fyrir að margir þeirra staða sem vert er að skoða svo sem Unter den Linden, Museumsinsel (Safnaeyjan), Reichstag og Brandenburger Tor eru í göngufæri (innan við 20-30 min gangur á flesta staði). Friedrichstraße, ein af stærri verslunargötunum er heldur ekki langt undan. Það er líka auðvelt að nálgast alla staði með almenningssamgöngum en bæði stoppustöðvar fyrir neðanjarðarlest (á Rosenthaler Platz) og sporvagn (á Pappelplatz) eru nánast á næsta götuhorni.

Herbergin

íbúðahótelið er með 6 íbúðir, eins til tveggja herbergja, sem geta rúmað frá tveimur og upp í sex gesti. Þetta eru snotur og snyrtileg herbergi en enginn íburður. Í öllum íbúðum er baðherbergi og lítil eldhúsaðstaða með ísskáp og því helsta sem þarf til að útbúa morgunverð eða létta máltíð. í öllum íbúðunum er líka aðgengi að þráðlausu neti.

Verðið

Verðið er viðráðanlegt, á bilinu 70-90 evrur á dag (10500-13500 íslenskar krónur). Íbúðahótelið er í fallegum bakgarði í sögulegu umhverfi, gamla Josty brugghúsinu. Í garðinum er líka mjög huggulegur veitingastaður og bar, Katz Orange, sem er vinsæll meðal heimamanna. Það þarf þó ekki að óttast mikið ónæði af staðnum.
Útsendari Túrista gisti nýverið í einni þessara íbúða og getur hiklaust mælt með þeim fyrir þá sem eru að leita að gistingu í Berlín á góðu verði.

Josty Brauerei býður lesendum Túrista 5 prósent afslátt á gistingu. Sjá nánar hér.

TENGDAR GREINAR: Story Hotel í Stokkhólmi