Kaninn slakar aftur á eftirliti með skóm farþega

Öfugt við Ísland þurfa eldri borgarar ekki lengur úr skóm við vopnaleit á bandarískum flugvöllum.

Á Keflavíkurflugvelli þurfa allir flugfarþegar að ganga á sokkalistunum í gegnum öryggishlið. Í Bandaríkjunum var líka látið eitt yfir alla ganga, þar til í fyrra þegar börn voru undanþegin þessu stranga eftirliti. Í kjölfarið voru gerðar tilraunir á nokkrum flugvöllum vestanhafs með að leyfa 75 ára og eldri að ganga í gegnum hliðin í skóm. Sú regla hefur nú verið fest í sessi á öllum flugvöllum vestanhafs.

Talsmaður Flugöryggisstofnunnar Bandaríkjanna (TSA) segir í svari til Túrista að þessar reglur gildi einnig fyrir farþega í millilandaflugi. Forsvarsmenn Flugmálastjórnar Íslands hafa hins vegar staðið í þeirri trú að breytingar á reglum vestanhafs eigi aðeins við um innanlandsflug þar í landi samkvæmt þeim svörum sem Túristi hefur fengið frá Flugmálastjórn.

Reglurnar eru í endurskoðun

Túristi hefur fjallað reglulega um hið sérstaka íslenska skóeftirlit sem á sér ekki hliðstæðu í nágrannaríkjunum. Í kjölfarið fór Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, yfir málið með Flugmálastjórn og Isavia og var niðurstaða þeirra viðræðna að reglurnar skyldu endurskoðaðar nú í haust.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Ferðaminningar Atla FannarsFjör á fjórtánda stræti í Washington
TENGDAR GREINAR: Reglur um skó endurskoðaðar í haustÓþarfa eftirlit á Keflavíkurflugvelli?


Mynd: Icelandair