Lendingarleyfi í London bæta stöðu SAS

Virði komuleyfa skandinavíska flugfélagsins, á Heathrow flugvelli, hleypur á hundruðum milljarða. Félagið kann að nota leyfin til að verða sér út um lánsfé.

Þær eru fullskipaðar flugbrautirnar við stærsta flugvöll Evrópu, Heathrow í London. Flugfélög sem vilja bæta vellinum við leiðakerfi sitt þurfa því að kaupa lendingarleyfi af núverandi félögum og dæmi eru um að leyfi hafi verið seld á sem samsvarar fimm milljarða íslenskra króna.

Forsvarsmenn skandinavíska flugfélagsins SAS íhuga nú að veðsetja leyfi félagsins í London til að fá aukið fjármagn í reksturinn. SAS situr á 3 til 5 prósent af öllum lendingarleyfum Heathrow vallar samkvæmt frétt Business.dk og gæti verðmæti þeirra verið um 250 milljarðar íslenskra króna.

Icelandair á tvö lendingarleyfi á Heathrow og virði þeirra því um tíu milljarðar króna líkt og Túristi greindi frá í vetur. Það mun hins vegar ekki vera til umræðu að koma þeim í verð samkvæmt upplýsingafulltrúa fyrirtækisins.