Mega áfram vera í bikiní á ströndinni

Ferðaþjónustan er Egyptum það mikilvæg að strangtrúaðir stjórnarherrar landsins eru til í að horfa í gegnum fingur sér og leyfa túristum að ganga um léttklæddir.

Þegar íslamistar tóku við stjórnartaumunum í Egyptalandi var búist við að þeir myndu leggja bann við notkun sundfata á almannafæri. Afleiðingarnar hefðu verið alvarlegar fyrir ferðaþjónustu landsins að mati sérfræðinga því Egyptaland er vinsæll áfangastaður meðal Evrópubúa sem vilja komast í sól og blíðu þegar kalt er í veðri á heimaslóðum. Ráðherra ferðamála í Egyptalandi fullyrðir hins vegar við Reuters að engin ástæða sé til að óttast bann við baðfötum. Hann segir það markmið stjórnvalda að efla ferðaþjónustuna og ná fjölda túrista upp í 15 milljónir á næsta ári. Það er aukning um fjórðung frá árinu í ár.

Sólarlandaferðir mikilvægar

Fyrir byltingu stóð ferðaþjónustan undir tíund af þjóðartekjum Egypta og þar af voru tekjur frá strandbæjunum við Rauðahafið sjötíu prósent af heildarinnkomunni. Það eru því ekki bara pýramídar sem laða ferðamenn að Egyptalandi.

TENGDAR GREINAR: Vilja ekki hálfnakta túrista
NÝJAR GREINAR: Bjórborgin DenverFerðaminningar Atla Fannars

Mynd: bobsfever/Creative Commons