Miklu fleiri Íslendingar til Berlínar

Á síðasta ári keyptu íslenskir ferðamenn rúmlega tuttugu þúsund gistinætur í höfuðborg Þýskalands. Það er mun meira en árið á undan.

Hátt í tíu þúsund farþegar flugu frá Íslandi til Berlínar á síðasta ári. Nam aukningin 64 prósentum á milli ára samkvæmt tölum frá ferðamálaráði borgarinnar. Gistinóttum Íslendinga í borginni fjölgaði á sama tíma um fjörtíu af hundraði og voru um 23 þúsund talsins. Allt árið í fyrra fjölgaði erlendum ferðamönnum í borginni um 9,9 prósent og voru Bretar, Hollendingar og Ítalir eru fjölmennastir.

Þýsk ferðamálayfirvöld vonast til að gestum í höfuðborginni fjölgi ennþá meira á næstu árum í kjölfar opnunar Berlín-Brandenburg flugvallarins. Áætlað er að hann leysi af flugvellina Tegel og Schönefeld í mars á næsta ári.

Á sumrin bjóða fjögur félög upp á áætlunarferðir héðan til Berlínar en aðeins WOW air ætlar að fljúga þangað allt árið um kring.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Hóteltékk: Ódýrt íbúðahótel í Mitte –  Hætta aftur við Berlín

Mynd: DZT