Næturflug eykst til muna

Í júlí fjölgaði brottförum frá Keflavíkurflugvelli um tíu prósent frá því í fyrra. Vægi ferða sem hefjast á nóttunni jókst hins vegar um nærri þriðjung frá árinu á undan.

Nokkur af þeim erlendu flugfélögum sem hingað fljúga á sumrin bjóða aðeins upp á brottfarir á nóttunni. Íslensku félögin nýta vélar sínar líka á þessum tíma. Í júlí fóru því 239 farþegaþotur í loftið frá Keflavíkurflugvelli á fyrstu sjö klukkutímum sólarhringsins. Á sama tíma í fyrra voru næturferðirnir 182 og aukningin í fjölda brottfara á þessum tíma dagsins því 31 prósent samkvæmt tölum úr ferðagagnabanka Túrista.

Sjötta hver á nóttunni

Líkt og kom fram hér á síðunni nýverið þá fjölgaði brottförum frá Keflavíkurflugvelli um tíund í júlí í samanburði við sama tíma í fyrra. Vægi næturflugs hefur þar af leiðandi aukist og fór sjötta hver farþegavél í loftið á fyrstu klukkutímum sólarhringsins í júlí. Munar þar um aukna áherslu íslensku félaganna á þennan brottfaratíma og fleiri ferðir lággjaldaflugfélagsins Airberlin. En þýska félagið flýgur héðan til sex áfangastaða og eru allar brottfarir þess að næturlagi.

Lítill verðmunur

Í febrúar sl. gerði Túristi athugun á verði farmiða til að kanna hvort næturflug væri almennt ódýrari kostur. Niðurstaðan var sú að það borgaði sig sjaldan að ferðast á nóttunni nema til að spara sér hótelgistingu fyrsta daginn.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Kaninn slakar aftur á eftirliti með skóm
TENGDAR GREINAR: Borgar sig að fljúga á nóttunni?

Mynd: Túristi