Nú rukkar easyJet líka fyrir sætin

Í byrjun vetrar geta farþegar easyJet bókað sér sæti um borð gegn aukagjaldi. Félagið hefur prófað þetta fyrirkomulag síðan í vor á útvöldum flugleiðum og niðurstaðan er sú að flestir vilja sitja vinstra megin í vélinni.

Í dag borga farþegar easyJet fyrir að fá að ganga um borð fyrstir og eiga þannig þess kost að setjast í uppáhalds sætin sín. Þetta fyrirkomulag hefur víst valdið ringulreið og óánægju og hyggst félagið því bjóða farþegum að bóka sér ákveðið sæti um leið og farmiðar eru pantaðir. Munu sætin kosta á bilinu 628 til 2358 krónur (4 til 15 evrur). Til samanburðar þá kostar sætin hjá WOW air 1490 krónur en 990 til 2990 krónur hjá Iceland Express.

Vinsælustu sætin

Samkvæmt fréttatilkynningu easyJet þá hafa staðið tilraunir á þessu nýja fyrirkomulagi síðan í vor og niðurstaðan er sú að á styttri flugleiðum þá selst sæti 6A best en fæstir vilja 16B. Í lengri ferðum þá er sæti 1A oftast bókað en 19B sjaldnast. Það virðist líka vera sem sætin vinstra megina í vélinni seljist betur en þau hægra megin.

Í samtali við Túrista segi Celine Perez fjölmiðlafulltrúi easyJet að markmiðið sé að tekjur af nýja fyrirkomulaginu verði að minnsta kosti jafn miklar og af því gamla. Hún segir niðurstöður tilrauna sumarsins gefa til kynna að það markmið muni nást.

Farþegarnir áhugalitlir

Aðeins sjö prósent þátttakanda í lesendakönnun Túrista í sumar sögðust alltaf bóka sér ákveðið sæti og borga fyrir það aukalega. Tveir af hverjum þremur sögðust hins vegar aldrei borga fyrir ákveðið flugsæti.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Fjör á fjórtánda stræti

HOTELS.COM: Lokatilboð á hótelum í London


Mynd: easyJet