Rússlandsreisan hefst í Túngötu

Icelandair hefur áætlunarflug til Rússlands á næsta ári. Þeir sem ætla að nýta sér beint flug til Sankti Pétursborgar verða að fá áritun hjá rússnesku ræðisskrifstofunni áður en haldið er í hann.

Ekkert af þeim löndum sem flogið er beint til frá Íslandi í dag krefur ferðamenn um vegabréfsáritanir. Bandaríkjamenn fara þó fram á að fólk geri boð á undan sér og skrái sig í ESTA gagnagrunninn. Með tilkomu áætlunarflugs Icelandair til Sankti Pétursborgar næsta sumar þá breytist staðan því þeir sem ætla að sækja Rússa heim þurfa að fá áritun.

Til að fá þetta skriflega leyfi til að ferðast til Rússlands þarf að mæta á ræðisskrifstofu landsins í Túngötu með vegabréf, passamynd, útfyllt eyðublað og sýna fram á sjúkratryggingu. Í svari skrifstofustjóra ræðisskrifstofunnar við fyrirspurn Túrista segir jafnframt að þeir sem ætla til Rússlands í viðskiptaerindum eða til að sækja ráðstefnu þurfi að hafa undir höndum boðsbréf frá viðkomandi aðilum í Rússlandi þar sem m.a. kemur fram nafn ferðamannsins og hversu löng dvölin í landinu verður. Án svona bréfs mega ferðamenn ekki taka þátt í fundarhöldum. Ræðisskrifstofan Rússa gefur ekki út þess háttar plögg.

Það kostar 5850 krónur að fá vegabréfsáritun sem gildir í 30 daga. Afgreiðslutíminn er fimm virkir dagar og þeir sem geta ekki beðið svo lengi og þurfa skyndiútgáfu borga tvöfalt gjald. Ræðisskrifstofan er opin frá 9 til kortér í tólf alla daga og þeir sem búa út á landi geta sent umboðsmann í sinn stað.

Nánari upplýsingar um vegabréfsáritanir til Rússlands má nálgast hér.