Tyrkland vinsælast hjá Svíum

Sólarlandaferðir seldust betur í Svíþjóð í sumar en á því síðasta. Aukningin í borgarferðum var ennþá meiri.

Fjórða árið í röð fóru flestir Svíar í sólarlandaferð til Antalya í Tyrklandi. Mallorca var næstvinsælasti áfangastaður sólþyrstra og grísku eyjarnar Krít, Ródos og Kýpur komu í sætunum á eftir. Samkvæmt frétt Dagens Nyheter fóru 12 prósent fleiri Svíar í sólarlandaferð í sumar en á sama tíma í fyrra.

London af toppnum

Frændur okkar voru hins vegar sérstaklega áhugasamir um borgarferðir í sumar og nam aukningin í sölu á þeim um þriðjungi. Hingað til hefur London notið mestrar hylli þeirra sem ætla í stutta borgarferð en í sumar var Barcelona vinsælust. New York var í öðru sæti en breska höfuðborgin í því þriðja.

Hvort að slæmt sumarveður hafi haft áhrif á ferðagleði Svía í sumar kemur ekki fram í frétt Dagens Nyheter en sumarið hefur verið einstaklega votviðrasamt í Svíþjóð. Það kann því að hafa ýtt undir áhuga á ferðalögum til heitari landa.

NÝJAR GREINAR: Hóteltékk Túrista: Josty Brauerei í Berlín

Mynd: Sindre Sørhus/Creative Commons