10 stærstu flugvellirnir

Það er flogið beint frá Keflavík til fjögurra af tíu stærstu flugvöllum í heimi.

Í síðustu viku voru 843,867 sæti í þeim farþegaþotum sem hófu sig til lofts frá Heathrow í London. Enginn annar flugvöllur í heiminum getur státað af öðru eins framboði samkvæmt talningu fyrirtækisins OAG. Innanlandsflug er ekki tekið með í reikninginn.

Þrír aðrir vellir á listanum yfir þá tíu stærstu eru hluti af leiðakerfi Icelandair, þ.e. Charles De Gaulle í París, Frankurt í Þýskalandi og Schiphol í Amsterdam. Á sumrin fljúga Iceland Express, WOW air og Transavia einnig héðan til Parísar.

Af flugvöllum frændþjóðanna þá er Kaupmannahafnarflugvöllur stærstur. Kemst hann í sæti númer 22 á heimsvísu. Arlanda í Stokkhólmi er í sæti 35, Gardemoen í Osló í sæti 47 og Vantaa í Helsinki er tveimur sætum neðar. Keflavík kemst ekki á listann yfir 100. stærstu flugvellina.

Tíu stærstu flugvellirnir og framboð á flugsætum í 15. til 21. október:

  1. Heathrow í London
  2. Dubai International
  3. Hong Kong International
  4. Charles De Gaulle í París
  5. Changi í Singapúr
  6. Frankfurt International
  7. Schiphol í Amsterdam
  8. Incheon í Seoul
  9. Bangkok International
  10. Ataturk í Istanbúl

TENGDAR GREINAR: Komuleyfi hugsanlega 10 milljarða virði
NÝJAR GREINAR: Tengiflug í súginn vegna seinkunar

Mynd: Heathrow Airport