Airberlin dregur úr Íslandsflugi

Annað stærsta flugfélag Þýskalands hættir flugi milli Keflavíkur og Stuttgart en verður áfram umsvifamesta erlenda félagið hér á sumrin.

Áttunda árið í röð ætlar Airberlin að fljúga hingað til lands yfir sumartímann. Á næsta ári verða áfangastaðirnir í Þýskalandi fjórir talsins en ekki fimm líkt og síðustu ár því félagið ætlar ekki að fljúga héðan til Stuttgart. Það verða því aðeins German Wings og WOW air sem bjóða upp á ferðir til þessarar sjöttu stærstu borgar Þýskalands.

Airberlin mun hins vegar fljúga héðan til Berlínar fjórum sinnum í viku , þrisvar til Dusseldorf og Munchen og tvisvar til Hamborgar. Samtals verða ferðirnar því tólf á viku sem er meira en önnur erlend félög bjóða upp á hér á landi yfir sumarmánuðina.

Mikill meirihluti Þjóðverja

Jana Andresen, talskona Airberlin, segir í samtali við Túrista að forsvarsmenn félagsins séu ánægðir með undirtektirnar sem flugið til Íslands hefur fengið. Hún segir þó mikinn meirihluta farþeganna vera Þjóðverja. Aðspurð um hvort Airberlin íhugi flug til Íslands yfir veturinn segir hún að leiðakerfi félagsins sé sífellt til endurskoðunar en á næsta ári verði aðeins í boði flug yfir aðalferðamannatímann.

Allar brottfarir Airberlin frá Keflavík eru eftir miðnætti og því lenda vélarnar snemma morguns í Þýskalandi. En eins og Túristi fjallaði nýverið um þá fjölgaði næturflugum frá Leifsstöð mikið í sumar.

Dótturfélag Airberlin, FlyNiki, heldur Vínarflugi sínu hingað áfram næsta sumar.

TENGDAR GREINAR: Íslandsflug þýsku félaganna gekk vel

Mynd: Víkurfréttir