Ferðamannaborg ársins í Evrópu

Í fyrra var það London og þar á undan þótti Istanbúl best en í ár unnu Skotar.

Hinar grjótlögðu, þröngu götur sem liggja upp að Edinborgarkastala, helsta kennileiti höfuðborgar Skotlands, hafa lengi haft aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Þar getur fólk virt fyrir sér hina fallegu byggð, keypt sér ódýr skotapils og jafnvel fundið góða afsökun til að fá sér vískí um miðjan dag.

Niðri á jafnsléttunni er að finna alls kyns búðir og gististaði og á matsölustöðunum er boðið upp á allt frá djúpsteiku marssúkkulaði og upp í Michelin mat.

Það er því margt hægt að gera í Edinborg og það þarf því ekki að koma á óvart að hún hafi verið valin fremsti áfangastaður Evrópu á verðlaunahátíðinni World Travel Awards fyrr í þessum mánuði.

Tekur Edinborg þar með við titlinum af Lundúnum sem hefur fengið nafnbótina reglulega síðan verðlaunin voru fyrsta afhent árið 1996.

Hætta við sérstakan hótelskatt

Síðustu ár hafa yfirvöld í Edinborg íhugað að leggja sérstakt gjald ofan á hótelverð í borginni. Áætlaðar árstekjur af gjaldheimtunni voru sem samsvarar um milljarður íslenskra króna. Peninginn átti m.a. að nota til að styðja við bakið á Edinborgarhátíðinni en hún laðar til sín mikinn fjölda gesta en gengur víst ekki upp fjárhagslega samkvæmt frétt Daily Mail.

En nú virðist gjaldtakan komin af dagskrá og því fagna ferðamálafrömuðir borgarinnar sem ítrekað hafa bent á að ein af ástæðunum fyrir komu túrista til Edinborgar er sú staðreynd að hún er frekar ódýr ferðamannastaður. Skatturinn hefði því komið sér illa.

Ferðaskrifstofan VITA býður upp á ferðir til Edinborgar í nóvember og í vor. Breska flugfélagið easyJet hefur svo áætlunarflug til borgarinnar næsta sumar.

NÝJAR GREINAR: Verslað í Washington5 ástæður til að heimsækja Berlín í vetur

Mynd: VisitScotland/ScottishViewpoint