Gistinóttum Íslendinga í Skandinavíu fjölgaði mikið

Í sumar fóru 7 prósent fleiri Íslendingar til útlanda en í fyrra. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum í Osló og Stokkhólmi um rúmlega þriðjung frá síðasta sumri.

Íslendingar keyptu rúmlega níu þúsund gistinætur í Kaupmannahöfn í júní, júlí og ágúst í ár. Þetta er aukning um nærri átta af hundraði frá sama tíma í fyrra. Íslenskum túristum fjölgaði mun meira í höfuðborgum Noregs og Svíþjóðar eða um rúmlega þriðjung í báðum tilvikum. Gistinætur merktar Íslendingum eru þó um fjórum sinnum færri í þessum tveimur borgum en í Kaupmannahöfn samkvæmt upplýsingum Túrista frá ferðamálaráðum borganna þriggja.

Á vef Ferðamálastofu kemur fram að utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um tæp sjö prósent í sumar í samanburði við síðasta ár. Hlutfallslega er aukningin í komu Íslendinga til Oslóar og Stokkhólms því langt umfram fjölgunina í ferðalögum til útlanda.

Í sumar flugu Icelandair og SAS til beggja þessara borga en Norwegian bauð upp á flug til Osló.

Líkt og fjallað var um hér á síðunni nýverið það jókst framboð á flugsætum til Kaupmannahafnar um rúmlega fjögur þúsund í sumar en farþegum á flugleiðinni fjölgaði aðeins um tæplega þúsund. Sætisnýtingin hefur því verið verri en sumarið á undan.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Miklu fleiri Íslendingar til Berlínar
NÝJAR GREINAR: Ferðamannaborg ársins í Evrópu