Handfarangursgjald fest í sessi

Hér eftir má aðeins taka með sér litla tösku þegar farið er um borð í vélar lággjaldaflugfélagsins Wizz Air án þess að borga aukalega. Tilraunir á þessu nýja kerfi heppnuðust það vel að það er komið til að vera.

Aukagjöld í fluggeiranum eru mjög algeng. Þannig rukka þrjú af þeim félögum sem halda uppi áætlunarflugi héðan í vetur sérstaklega fyrir allan innritaðan farangur. Iceland Express mun fara sömu leið innan tíðar.

Eitt stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, hið ungverska Wizz Air, hefur síðan í sumar krafið farþega sína um 10 evrur (um 1600 krónur) aukalega fyrir allan handfarangur sem ekki kemst undir flugstólana. Fólk þarf því að borga sérstaklega fyrir hinar hefðbundnu handfarangurstöskur sem margir nota. Forsvarsmenn félagsins hafa nú gefið það út að tilraunir á þessu nýja fyrirkomulagi hafi gefið góða raun og þeir ætli því að taka það upp til frambúðar.

Það verður að teljast líklegt að forsvarsmenn margra flugfélaga fylgist með framvindu mála hjá Wizz Air því áhugi fluggeirans á nýjum gjöldum er mikill. Ungverska leiðin gæti því borist hingað til lands fljótlega.

NÝJAR GREINAR: 5 ástæður til að heimsækja Berlín í veturVegvísir Berlín
TENGDAR GREINAR: Farangursgjald í pípunum en enginn fríðindaklúbbur

Mynd: geishaboy500/Creative Common