Hóteltékk: Hotel Kong Arthur í Kaupmannahöfn

Skemmtilega staðsett klassískt hótel í gömlu höfuðborginni

Rétt við tjarnirnar (Søerne), sem skilja Brúarhverfin frá miðborg Kaupmannahafnar, er finna aldargamla heimavist sem hýsir í dag Hotel Kong Arthur. Þessi fjögurra stjörnu gististaður er reyndar til húsa í nokkrum byggingum í fallegum bakgarði rétt við brúna sem liggur yfir í eitt skemmtilegasta hverfi borgarinnar, Nørrebro. Frá hótelinu er gengt út í Nansensgade sem er falleg veitinga- og verslunargata sem nýtur mikilla vinsælda meðal Kaupmannahafnarbúa en er ekki svo fjölfarinn af ferðalöngum.

Það er nokkur miðaldabragur á húsgögnum hótelsins sem passar vel inn í þessar virðulegu byggingar og gefur hótelinu klassískt yfirbragð. Tískustraumar dagsins í dag eru því fjarri.

Það er frítt netsamband á öllu hótelinu og þar er líka stórt spa fyrir þá sem vilja komast í svoleiðis afslöppun.

Herbergin

Slotsstíllinn er ríkjandi á herbergjunum líkt og annars staðar á hótelinu. Húsgögnin í dökkum litum og gluggatjöldin stór og mikil. Baðherbergin eru nýleg og fín en rúmin mættu vera mýkri að mati útsendara Túrista. Herbergin vísa flest inn í bakgarðinn og eru því hljóðlát sem er mikill kostur þegar búið er miðsvæðis í Kaupmannahöfn.

Staðsetningin

Það tekur í mesta lagi tíu mínútur að ganga frá Nørreport lestarstöðinni að hótelinu. Á þá stöð fara bæði venjulegar lestir og metró og því ódýrt og auðvelt að komast þangað frá flugvellinum. Nálægðin við Søerne, eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarinnar, Nørrebro og Nansensgade gera hótelið að góðum kosti fyrir þá sem vilja sjá aðra hlið á borginni en eingöngu þá sem finna má í innsta kjarna hennar.

Matarmarkaðurinn Torvehallerne er við Nørreport og heimsókn þangað svíkur engan sælkera. Fjöldi veitingahúsa er á staðnum og svo má kaupa þar ýmislegt fyrir eldhússkápana heima.

Maturinn

Góður morgunmatur í hlýlegum borðsal á jarðhæð. Góð byrjun á deginum fyrir þá sem vilja komast að veisluborði sem fyrst eftir að stigið er fram úr. Þeir sem hafa meiri þolinmæði geta þefað uppi góð kaffihús í nágrenninu, t.d. í Nansensgade eða í Torvehallerne. Tveir veitingastaðir eru í húsinu og má hiklaust mæla með þeim spænska, Pintxos.

Verðið

Það kostar sjaldnast minna en 35 þúsund krónur að búa á Hotel Kong Arthur.

TENGDAR GREINAR: Hóteltékk í Stokkhólmi og Berlín