Icelandair býður betur til Gatwick

Næsta fimmtudag hefst áætlunarflug Icelandair til Gatwick flugvallar í London. Félagið býður lægra verð á þessari flugleið en Iceland Express næstu vikur samkvæmt verðkönnun.

Fram til þessa hefur Heathrow flugvöllur verið eina heimahöfn Icelandair í höfuðborg Bretlands. Lendingarleyfi á þeim velli eru hins vegar löngu uppseld og ganga kaupum og sölum á milljarða króna eins og áður hefur verið fjallað um. Þann 18. október fjölgar Icelandair þó ferðum sínum til Lundúna með því að notast einnig við Gatwick flugvöll. WOW air skipti nýlega yfir á þennan næststærsta flugvöll Lundúnarsvæðisins en áður hafði Iceland Express verið eina íslenska félagið þar á bæ.

Rúmlega 9 þúsund króna munur

Ferðir Icelandair til Gatwick verða á fimmtudögum og sunnudögum. Samkvæmt verðkönnun Túrista þá er félagið ódýrari kostur en Iceland Express þegar borin eru saman verð á flugi til Gatwick næstu fimmtudaga og heim i vikulok. Í nóvember er munurinn oftast á bilinu fimm til níu þúsund krónur en lægstu verð Icelandair eru 40.560 krónur. Þessu hefur verið öfugt farið í mánaðarlegum verðkönnunum Túrista í ár því þar hefur Icelandair alla jafna verið með hærri fargjöld en samkeppnisaðilarnir.

WOW air flýgur til Gatwick á föstudögum og heim á mánudögum og eru mánudagsferðirnar uppseldar fram í byrjun nóvember en þar eftir eru verðin á bilinu 39.625 til 43.625 án farangursgjalds. Gjald fyrir hverja innritaða tösku hjá WOW air er 2900 krónur.

TENGDAR GREINAR: Jamie Oliver opnar á Gatwick
NÝJAR GREINAR: Verslað í Washington5 ástæður til að heimsækja Berlín í vetur

Mynd: London on View