Mega ekki kalla sig flugfélag

Nýtt norskt ferðaþjónustufyrirtæki sem ætlar að starfa í anda Iceland Express og WOW air má ekki kalla sig flugfélag að mati þarlendra yfirvalda.

Það er ekki nóg að hafa farþegaþotur á leigu til að mega kalla sig flugfélag í Noregi. Þetta er niðurstaða norskra flugmálayfirvalda sem hafa bannað forsvarsmönnum FlyNonStop að kynna félagið sem flugfélag í markaðsefni sínu samkvæmt tilkynningu á vef Luftfartstilsynet. FlyNonStop hefur starfssemi á næsta ári og mun bjóða upp á áætlunarferðir til nokkurra áfangastaða frá Kristiansand í suðurhluta Noregs. Félagið hefur leigt þotur til rekstursins en ætlar ekki að gerast flugrekandi. Þetta er álíka rekstrarmódel og Iceland Express og WOW air nota.

Segjast vera flugfélög í útlöndum en ekki heima

Iceland Express hyggst fljúga til Noregs á næsta ári og má því væntanlega ekki markaðssetja sig sem flugfélag þar í landi. Á danskri og sænskri heimasíðu sinni er Iceland Express sagt flugfélag en ekki er tekið jafnt djúpt í árinni á íslenskri heimasíðu þess. Þar segir aðeins að fyrirtækið haldi uppi áætlunarflugi. Á enskri heimasíðu WOW air er fyrirtækið kynnt sem nýtt íslenskt flugfélag en á þeirri íslensku er það sagt vera nýtt á sviði ferðaþjónustu. Það gætir því töluverðs ósamræmis hjá félögunum í kynningu á sjálfum sér innanlands eða utan.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Tengiflug í súginn vegna seinkunar