Minni sætanýting í Kaupmannahafnarflugi

Fleiri farþegar en fleiri auð sæti í flugvélum milli Keflavíkur og Kastrup.

Í sumar var boðið upp á allt að sjö ferðir á dag héðan til Kaupmannahafnar og vikulegar ferðir allt að þrjátíu og átta. Þetta er aukning um tvær á viku yfir háannatímann miðað við sama tíma í fyrra. Munar þar mestu um að WOW air flaug til dönsku höfuðborgarinnar í sumar en Icelandair og Iceland Express höfðu setið ein að þessari flugleið. Í leiguvélum WOW air eru sæti fyrir 168 farþega sem er aðeins minna en hjá hinum. Það má því reikna með að framboð á sætum hafi aukist um rúmlega þrjú hundruð á viku sem jafngildir um 4400 sætum yfir allt sumarið. Hins vegar fjölgaði þeim farþegum sem komu til Kaupmannahafnar frá Íslandi aðeins um 852 samkvæmt tölum frá samgönguráði Dana. Það er því ljóst að sætanýtingin á þessari vinsælu flugleið hefur versnað í sumar.

Fleiri til og frá Billund

Icelandair og Iceland Express flugu bæði til Billund í sumar og það fyrrnefnda fram til loka þessa mánaðar. Farþegum félaganna tveggja, til og frá jóska bænum, fjölgaði um tæplega sex hundruð í sumar og fóru samtals 17.515 farþegar á milli. Til samanburðar voru farþegar á milli Keflavíkur og Kastrup 139.969 talsins í sumar.

Taka skal fram að danska samgönguráðið telur hvern farþega á leiðinni frá Danmörku og líka þegar komið er tilbaka.

NÝJAR GREINAR: Verslað í Washington5 ástæður til að heimsækja Berlín í vetur

Mynd: CPH