Óánægja með kjör easyJet í Keflavík

Breska félagið fjölgar áfangastöðum og ferðum héðan til Bretlands. Talsmaður Iceland Express segir að það skekki samkeppnisstöðuna að easyJet fái afslátt af lendingargjöldum Keflavíkurflugvallar.

Í dag tilkynnti easyJet að félagið ætlar að fjölga ferðum sínum héðan til London og hefja flug til Edinborgar og Manchester. Líkt og Túristi benti á í byrjun árs þá fær easyJet felld niður lendingar- og farþegagjöld á Keflavíkurflugvelli í vetur og umstalsverðan afslátt næstu ár. Þessi kjör eru í samræmi við nýlegt kerfi Keflavíkurflugvallar sem á að létta undir með flugrekendum um hríð vegna þeirrar áhættu sem fylgir því að hefja flug á nýjum leiðum eins og segir í svari Isavia við fyrirspurn Túrista.

Isavia lítur á flug til Luton flugvallar, í nágrenni London, sem nýja flugleið en það eru forsvarsmenn Iceland Express ósáttir við. „Í okkar huga er það því alveg á mörkunum að Luton geti talist vera nýr áfangastaður, þar sem hann er bara einn af mörgum flugvöllum sem þjóna London“, segir Heimir Már Pétursson, talsmaður Iceland Express og bendir á að það eru fimm flugvellir á Lundúnarsvæðinu og Luton er einn þeirra. „Myndi það til að mynda teljast nýr áfangastaður ef farið yrði að fljúga á Torp flugvöll suður af Osló í stað Gardemoen, eða Beauvais skammt frá París?, spyr Heimir.

Ólíklega afslættir út á nýju borgirnar

Icelandair flýgur reglulega til Manchester flugvallar og því ætti easyJet ekki að fá afslátt á þeirri flugleið og þar sem Iceland Express hefur flogið til Edinborgar sl. sumur þá uppfyllir sú flugleið heldur ekki skilyrði Isavia fyrir lækkun gjalda. En samkvæmt útreikningum Túrista getur afslátturinn, sem er á bilinu 25 til 100%, numið nokkrum milljónum á mánuði.

Í fréttatilkynningu easyJet kemur fram að félagið sé fyrsta erlenda félagið til að fljúga hingað frá fleiri en tveimur áfangastöðum. Það er ekki rétt því að Airberlin hefur flogið hingað síðustu sumur frá sex borgum.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝTT: Vegvísir Berlín
LOKAÚTKALL: Sevilla og Madrid á 29.900 kr.