SAS hættir við nýtt aukagjald

Skandinavíska félagið hefur dregið í land með áform sín um að leggja gjald á allar kreditkortagreiðslur.

Þegar keyptir eru farmiðar á heimasíðum Norwegian og easyJet þá þarf að borga hærra verð ef greitt er með kreditkorti. Nemur gjaldið hjá því fyrrnefnda um þúsund krónum. Íslenskir korthafar komast ekki hjá þessum aukagjöldum því hérlend debertkort eru ekki gjaldgeng í netviðskiptum.

Hið skandinavíska SAS ætlaði að feta í fótspor lággjaldaflugfélaganna og leggja 2,2 prósent ofan á öll kreditkortaviðskipti nú í haust. Úr því verður hins vegar ekki. Haft er eftir talskonu félagsins í Aftenposten að við innleiðingu gjaldsins hafi starfsmenn rekist á of margar tæknilegar- og lagalegar hindranir. Hún viðurkennir einnig viðbrögð markaðarins hafi verið neikvæð.

SAS hafði áætlað að tekjur af nýja gjaldinu yrðu á bilnu 4 til 6 milljarðar íslenskra króna sem á að vera álíka mikið og félagið borgar í þóknun til kortafyrirtækja í dag.

TENGDAR GREINAR: Komumst ekki hjá kortagjaldi
NÝTT EFNI: Vegvísir Berlín

Mynd: SAS